„Þetta er að sjálfsögðu brot á reglum. Þetta hefði aldrei leyft!“ segir Guðmundur Þ. Þórhallsson, framkvæmdastjóri Lífeyrissjóðs verslunarmanna. Hann var forstöðumaður eignastýringar lífeyrissjóðsins á sama tíma og Gunnlaugur Briem, sem embætti sérstaks saksóknara hefur ákært fyrir meiri háttar brot á skattalögum, stundaði umsvifamikil gjaldeyrisviðskipti í eigin nafni á árunum 2006 til 2008.

Fram kemur í ákæru á hendur Gunnlaugi að hann hafi gert 584 framvirka samninga með gjaldeyri og vantalið rúmlega 593 milljóna króna tekjur. Undanskot hans frá skatti er í ákærunni sagt nema tæpum 60 milljónum króna. Verði Gunnlaugur fundinn sekur um brotið getur hann átti yfir höfði sér sektargreiðslu sem jafngildir margfaldri skattfjárhæðinni og allt að sex ára fangelsi. Mál embættis sérstaks saksóknara á hendur Gunnlaugi var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun.

Vissu ekkert

Guðmundur segir stjórn lífeyrissjóðsins ekki hafa verið kunnugt um gjaldeyrisviðskiptin fyrr en hún hafi fengið pata af rannsókn embættis sérstaks saksóknara í fyrrasumar. Gunnlaugur hóf störf hjá Lífeyrissjóði verslunarmanna árið 2002 og hætti sumarið 2009 að sögn til að fara í nám.

Guðmundir leggur áherslu á að Gunnlaugur hafi ekki notað fjármuni sjóðsins í viðskiptum sínum og hafi hvorki sjóðurinn né sjóðsfélagar skaðast vegna þeirra.

Hann segir hins vegar viðskiptin klárt brot á reglum Lífeyrissjóðs verslunarmanna. Árið 2001 innleiddi lífeyrissjóðurinn verklagsreglur um verðbréfaviðskipti lífeyrissjóðsins, stjórnar og starfsmanna og hafa þær verið hertar síðan þá.

Viðskiptablaðið hefur reynt að hafa samband við Gunnlaug vegna málsins. Það hefur ekki borið árangur.