Pétur Blöndal, formaður efnahags- og skattanefndar, segir frumvarp til breytingar á lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda vera í eðlilegum farvegi innan nefndarinnar og verið sé að meta kosti þess og galla.

Ólíklegt má teljast að frumvarpið verði afgreitt á vorþingi. Hrafn Magnússon formaður Landsamtaka lífeyrissjóða segir að samtökin mæli með samþykki frumvarpsins.

Lífeyrissjóðum verður heimilt að taka þátt í skipulegum lánamarkaði með verðbréf ef hið nýja frumvarp fjármálaráðherra nær fram að ganga. Frumvarpið snýst um breytingu á lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda.

Í umsögn fjárlagaskrifstofu Fjármálaráðuneytisins segir að í breytingunni felist að lífeyrissjóður geti yfirfært verðbréf tímabundið til annars aðila, þ.e. lántaka, fyrir þóknun á grundvelli samnings þar um. Hefur frumvarpið þegar farið í gegnum fyrstu umræðu og er það nú til afgreiðslu hjá efnahags- og skattanefnd.

Meðal þeirra sem skiluðu umsögn um umrætt lagafrumvarp voru Landsamtök lífeyrissjóða. Í umsögn samtakanna segir að þau mæli með samþykki frumvarpsins. Samtökin telja þó að eðlilegt væri að fresta gildistöku ákvæða vegna heimilda lífeyrissjóða til innlendra verðbréfalána. Ástæðan ku vera aðstaða á verðbréfamörkuðum og undirbúningur af hálfu sjóðanna, m.a. vegna breytinga á fjárfestingastefnum þeirra.

Telja Landsamtök lífeyrissjóða eðlilegt að sjóðunum gefist nægur tími til að mæta þessum auknu heimildum sem gera lífeyrissjóðunum kleift að taka þátt í viðskiptum á skipulögðum lánamarkaði með innlend verðbréf.