Forseti Argentínu, Cristina Fernandez de Kirchner, skrifaði í dag undir löggjöf sem gerir ríkinu kleift að þjóðnýta lífeyrissjóði landsins. Tíu sjóðir verða teknir yfir, en eignir þeirra nema alls 29.3 milljörðum dollara af sparnaði landsmanna. Forsvarsmenn félagsmálayfirvalda í Argentínu hafa kallað einkavæðingu lífeyrissjóðanna þar í landi hrikaleg mistök. Bloomberg segir frá þessu í kvöld.

Fernandez segir að ákvörðunin um þjóðnýtinguna sé tekin til að vernda launamenn og eftirlaunaþega, á meðan G8-ríkin hafi farið þá leið á vernda banka og fjármálakerfið. Stjórnarandstæðingar hafa gagnrýnt aðgerðina, og sagt að ríkið hafi haft tvo möguleika í stöðunni: Draga úr eyðslu, útrýma hvers kyns niðurgreiðslum og gjalda fyrir það pólitískt, eða hrifsa til sín sparnað landsmanna. Síðari kosturinn hafi verið valinn.

Fernandez hefur átt í vandræðum með að finna fjármagn fyrir rekstur hins opinbera allt frá því að 20 milljarða dollarar af skuldum ríkisins gjaldféll fyrir skömmu. Ríkið hefur raunar haft afar takmarkaðan aðgang að alþjóðlegum fjármagnsmörkuðum allt frá því að 95 milljarða dollara skuld þess gjaldféll árið 2001.