Marel [ MARL ] lauk lokuðu hlutafjárútboði sínu á föstudaginn. Um var að ræða 29,8 milljónir hluta sem jafngildir 7,97% af heildarhlutafé fyrir hlutafjárhækkunina. Í morgunkorni Glitnis segir að verð nýju hlutanna hafi verið 92 krónur á hlut sem var 4% undir gengi á markaði á föstudag. Kaupendur voru lífeyrissjóðir og aðrir fjárfestar. Allir helstu lífeyrissjóðirnir verða nú meðal stærstu hluthafa Marel. Þar með er fyrsta hluta í fjármögnun Marel vegna kaupanna á Stork Food Systems lokið. Greining Glitnis telur þetta jákvæðar fréttir fyrir Marel. Viðskipti með bréf í Marel hafa oft og tíðum verið strjál í samanburði við önnur félög í Kauphöllinni. Nú liggur fyrir að hluthafahópurinn verður fjölbreyttari en áður, segir í Morgunkorninu.