Íslenskir lífeyrissjóðir líta í auknum mæli til gjaldeyris sem eignaflokks í fjárfestingum sínum. Það kom fram í máli forstöðumanns eignasviðs Sameinaða lífeyrissjóðsins á morgunverðarfundi Aska Capital, sem haldinn var í gær undir yfirskriftinni „Tækifæri á gjaldmiðlamörkuðum“.

Á fundinum kom fram að hugmyndafræði Aska Capital byggir í grunninn á þremur atriðum. Í fyrsta lagi að gjaldeyrir sé eignaflokkur sem hafi litla fylgni við aðra eignaflokka. Í öðru lagi að sveiflur í gengi gjaldmiðla hafi ákveðna eiginleika sem unnt sé að hagnýta á kerfisbundinn hátt. Í þriðja lagi að virk áhættustýring, bæði fyrir safn gjaldmiðla og í einstökum viðskiptum, geri félaginu kleift að taka upplýstar ákvarðanir og ná umframávöxtun.

Askar stofnuðu fyrir nokkrum mánuðum fimm manna gjaldeyristeymi og reka sérstakan gjaldeyrissjóð. Í máli Tryggva Þórs Herbertssonar, forstjóra AskaCapital, kom fram að í byrjun þessarar viku hefðu eignir sjóðsins verið færðar yfir til Írlands og að hann væri nú skráður þar í landi.

_______________________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .