Vinnuhópur fulltrúa þriggja lífeyrissjóða, Grindavíkurbæjar, fjármálaráðuneytis og iðnaðarráðuneytis skoðar nú alvarlega möguleika þess að kaupa allan 55% hlut Geysis Green Energy í HS Orku.

Nái kaupin fram að ganga munu lífeyrissjóðirnir þrír ásamt Grindavíkurbæ ná meirihlutanum í HS Orku en kanadíska félagið Magma Energy, er búið að tryggja sér rúmlega 43% hlut.

Lífeyrissjóðirnir sem taka þátt í viðræðunum eru: Lífeyrissjóður verzlunarmanna, Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins og Gildi lífeyrissjóður. Hlutur GGE í HS Orku gæti, miðað við síðustu viðskipti, kostað um  fimmtán til sautján milljarða íslenskra króna.

Viðræður á byrjunarstigi

Guðmundur Árnason, ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneytinu, segir í samtali við Viðskiptablaðið að viðræður vinnuhópsins við GGE séu á byrjunarstigi. Engu að síður hafi verið undirritaðar trúnaðaryfirlýsingar milli aðila þar sem fulltrúum lífeyrissjóðanna og ríkisins er veittur aðgangur að trúnaðarupplýsingum um HS Orku.

Þannig geti vinnuhópurinn lagt mat á fjárfestingarkostinn. „Viðræðurnar snúast um það hvort það sé fýsilegt fyrir þessa aðila að leitast eftir því að kaupa hlut Geysis Green í HS Orku," segir hann.

Viðræðurnar fara fram að frumkvæði fjármálaráðherra og iðnaðarráðherra.

Þegar umræðan um fyrirhuguð kaup Magma Energy á hlut í HS Orku komst í hámæli í ágúst ákváðu þessir tveir ráðherrar að stofna hóp til að kanna „möguleg kaup á meirihluta hlutafjár í HS Orku," eins og það var orðað í yfirlýsingu sem var send út 31. ágúst síðastliðinn.