Lífeyrissjóðir voru stórtækir í kaupum á skuldabréfum og víxlum fyrirtækja síðari hluta liðins árs og hafa verið það einnig það sem af er þessu ári, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins.

Þar hafa kjörin vitanlega ráðið mestu og hafa þeir getað gert um 8-9% ávöxtunarkröfu að jafnaði og allt upp í 10% í sumum tilvikum.

Þeir sem Viðskiptablaðið ræddi við orðuðu það svo að í sumum tilvikum hefði sjóðunum nánast verið í sjálfvald sett hver ávöxtunarkrafan væri.

Í sterkri stöðu vegna fjármagns

„Þegar lausafjárkreppan skall á komust lífeyrissjóðir í mjög sterka samningsstöðu í krafti þess að hafa fjármagn til ráðstöfunar. Þetta er frábært akkeri í ávöxtun sjóðanna,“ sagði einn viðmælenda Viðskiptablaðsins úr lífeyrissjóðakerfinu.

„Á sama tíma eru menn meðvitaðir um að því hærri sem krafan er því erfiðara er fyrir fyrirtækin að standa undir henni og greiða slíka vexti.“

Allt að fimmtungur eigna lífeyrissjóða getur verið fólginn í slíkum bréfum en það er þó mismunandi eftir sjóðum.

___________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .