Sjóðsstaða íslensku lífeyrissjóðanna hefur aldrei verið betri. Samkvæmt uppgjöri Seðlabankans frá því í nóvember voru lífeyrissjóðirnir með tæpa 160 milljarða króna í sjóðum sem að mestu eru geymdir á innlánareikningum bankanna.

Í frétt Viðskiptablaðsins í dag kemur fram að þessir peningar ávaxtast á 18 til 20% ávöxtun, eða nálægt því sem verðbólgan mælist nú. Ljóst er að lífeyrissjóðirnir halda að sér höndum á skuldabréfamarkaði, að ekki sé talað um hlutabréfamarkaði. Þá geta þeir ekki fjárfest erlendis vegna gjaldeyrislaganna. Þess er vænst að þeir verði fyrirferðamiklir á skuldabréfamarkaði á árinu enda nánast eini aðilinn sem starfar þar. Á milli 10 og 15 milljarðar króna bætast við þessa stöðu.

Þá hafa lífeyrissjóðirnir gert kröfu um að lokið verði við uppgjör vegna gjaldmiðlaskiptasamninga þeirra sem sjóðirnir eiga í gömlu bönkunum áður en þeir koma inn í Fjárfestingasjóð Íslands sem einnig hefur verið kallaður Endurreisnarsjóður Íslands. Að sögn Arnars Sigurmundssonar, formanns Landssamtaka lífeyrissjóða, er þáttaka þeirra alfarið skilyrt við uppgjörið á gjaldmiðlaskiptasamningunum. "Það hefur alltaf legið fyrir að þetta miðaðist allt við það að lífeyrissjóðirnir næðu ásættanlegri lendingu og uppgjöri um framvirka gjaldeyrissamninga. Það er vegna þess að það er mikil óvissa út af þessum samningum og það er ekki enn komin niðurstaða."

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu í dag.