Landsnet hefur nýlokið útgáfu skuldabréfa að fjárhæð 5 milljarða króna. Um er að ræða fyrstu útgáfu fyrirtækisins á innlendum skuldabréfamarkaði og voru bréfin seld til lífeyrissjóða. Jákvæð viðbrögð fjárfesta leiddu til verulegrar umframeftirspurnar, en upphaflega voru boðnir út 3 milljarðar króna.

,,Við erum afar ánægð með viðtökur lífeyrissjóðanna og því trausti sem þeir sýna Landsneti”, segir Þórður Guðmundsson, forstjóri Landsnets í tilkynningu. ,,Á næstu árum er framundan uppbygging Suðvesturlína, þar sem unnið verður að endurnýjun og stækkun raforkuflutningskerfisins frá Hellisheiði út á Reykjanes. Verkefnið tengist uppbyggingu orkuiðnaðar á þessu svæði til framtíðar. Landsnet mun einnig halda áfram að þróa og styrkja núverandi flutningskerfi. Stuðningur fjárfesta er okkur því mjög mikilvægur á þessum tímum”.

Saga Capital Fjárfestingarbanki hafði umsjón með útgáfu og sölu skuldabréfanna og mun einnig sjá um skráningu þeirra á Nasdaq OMX á Íslandi. Skuldabréfin eru verðtryggð og gefin út til 25 ára.