Lífeyrissjóðirnir í landinu hafa safnað á annað hundrað milljörðum króna í sjóðum í bönkunum. Greint er frá því í Viðskiptablaðinu í dag að nú sé áhugi fyrir að nýta þessa peninga til að fjármagna nýframkvæmdir á borð við uppbyggingu Landspítalans og ný göng undir Hvalfjörð.

Lífeyrissjóðirnir eru tilbúnir til að taki þátt í skuldabréfaútboðum vegna mannaflsfrekra framkvæmda hér á landi þrátt fyrir að enn sé óuppgerð mál varðandi uppgjör vegna gjaldmiðlavarnasamninga og skuldabréfaeignar 15 lífeyrissjóða við skilanefndir bankanna. Er fjármögnun nýframkvæmda Reykjavíkurborgar þar á meðal.

Í lok febrúar 2009 áttu lífeyrissjóðirnir um 153 milljarða í sjóðum á bankainnistæðum miðað við 45 milljarða í árslok 2007. Þetta er um 10% af eignum sjóðanna sem vilji er til að beina í arðbærar framkvæmdir.

„Varðandi þátttöku í skuldabréfaútboðum hafa sjóðirnir átt í viðræðum við þrjá aðila sem eru mislangt á veg komnar," segir Arnar Sigurmundsson, formaður Landssamtaka lífeyrissjóða.

„Við áttum viðræður við fulltrúa Spalar í síðustu viku þar sem hugmyndir eru uppi um að tvöfalda Hvalfjarðagöng. Einnig að styrkja gatnakerfið að göngunum. Síðan höfum við tekið þátt í kynningarfundi með Landspítala háskólasjúkrahúsi. Þar voru okkur kynntar hugmyndir sem eru í ákveðinni þróun. Í þriðja lagi hefur Reykjavíkurborg verið í viðræðum við nokkra lífeyrissjóði varðandi skuldabréfaútboð til að tryggja fjármagn í mannaflsfrekar framkvæmdir á þessu ári. Þá mál er á lokastigi og varðar tæknilegar útfærslur. Þessi mál truflast ekki af málum er varða uppgjörið við bankanna.

Arnar segir að ágreiningurinn um uppgjör við bankana hafi aftur á móti áhrif á viðræður um Fjárfestingafélag Íslands sem staðið hafi yfir síðan í desember og miða að fjárfestingu í lífvænlegum fyrirtækjum.

Hrafn Magnússon, framkvæmdastjóri Landssamtaka lífeyrissjóða, tekur í sama streng og segir þó óþægilegt að ekki sé búið að þessi mál við skilanefndir bankanna.

„Við erum auðvitað með fjármuni sem við geymum á hliðarlínunni í bönkunum. Það eru ýmis verkefni sem við höfum í sjálfu sér ekkert á móti að fjármagna. Við erum alveg tilbúnir að skoða þau mál burtséð frá niðurstöðu varðandi gjaldmiðlavarnasamninga. Hins vegar setur það okkur í verulegan vanda meðan þetta er hangandi í lausu lofti varðandi það að ganga frá málum og stofna fjárfestingasjóð atvinnulífsins," segir Hrafn.

Hann segist gera ráð fyrir að peningarnir sem nú liggja á bankareikningum hérlendis séu þokkalega ávaxtaðir. Líklegt sé þó að vextir fari lækkandi þannig að hagkvæmt geti orðið að koma þeim peningum í vinnu utan bankanna.