Samkvæmt efnahagsyfirliti Seðlabankans í janúar er neikvæð staða lífeyrissjóðanna vegna afleiðusamninga, mest vegna gjaldeyrisskiptasamninga, 68,7 milljarðar króna. Hrein eign lífeyrisjóðanna jókst um tæpa 11 milljarða í janúar og er í heild 1.797 milljarðar króna. Það jafngildir 0,6% hækkun milli mánaða. Hafa verður í huga að iðgjaldagreiðslur eru mun hærri en lífeyrisgreiðslur og endurspeglar aukningin milli mánaða ekki raunávöxtun sjóðanna.

Gjaldeyrisskiptasamningar sem lífeyrissjóðirnir gerðu við föllnu bankana þrjá, Landsbankann, Glitni og Kaupþing, eru enn óuppgerðir. Viðræður um hvernig þeir skuli gerðir upp hafa ekki skilað árangri þrátt fyrir viðræður. Fleiri tengd mál hanga á spýtunni sem beðið er eftir og því einskorðast uppgjör á þessum samningum ekki við lífeyrissjóðina eina.

Til þessa hafa skilanefndir bankanna ekki viljað fallast á það sjónarmið forsvarsmanna lífeyrissjóðanna að gjaldmiðlaskiptasamningarnir skuli gerðir upp á því gengi sem var þegar bankarnir féllu. Skilanefndirnar telja að gera skuli upp samningana miðað við það gengi sem er á þeim degi sem skuldir eru greiddar. Miklir hagsmunir eru í húfi, bæði fyrir kröfuhafa gömlu bankanna og lífeyrissjóðanna.