Hrafn Magnússon, framkvæmdastjóri Landssamtaka lífeyrissjóða, segir að ekki hefði verið hægt að hafna tilboði Seðlabankans um að kaupa íbúðabréf sem bankinn keypti af Seðlabankann í Lúxemborg. „Vegna þessa eru minni líkur á að sjóðirnir þurfi að skerða réttindi sjóðsfélaga," sagði Hrafn á blaðamannafundi í morgun.

Bréfin sem sjóðirnir keyptu eru verðtryggð, að jafnaði til níu ára og ávöxtunarkrafan er um 7,2%. Fyrir bréfin láta lífeyrissjóðirnir evrur af hendi og segir Hrafn að miðað við ávöxtunarkröfuna sé hægt að finna út að gengi krónunnar í viðskiptunum sé nálægt 250 krónur. Már Guðmundsson seðlabankastjóri lagði áherslu á að krónu/evru gengið miðist við seðlabankagengið eins og það var á föstudaginn en ávinningur lífeyrissjóðanna komi fram í ávöxtunarkröfunni.

Ávöxtunarkrafa skuldabréfanna er umtalsvert hærri en miðað er við í tryggingafræðilegu uppgjöri lífeyrissjóðanna. Því gera lífeyrissjóðirnir 26 sem taka þátt í þessum viðskiptum ráð fyrir að bæta megi tryggingafræðilega stöðu íslenska lífeyrissjóðskerfisins um 1-2%.

Á því byggja ummæli Hrafns Magnússonar að minni líkur séu nú á að skerða þurfi réttindi sjóðsfélaga.