Félögin tvö sem hafa sýnt áhuga á að kaupa matvörukeðjuna Somerfield gætu komið með formlegt tilboð á næstu vikum, segir í frétt Financial Times. Félögin náðu samkomulagi við stjórn lífeyrissjóða sem vildi tryggja lífeyrissjóðsgreiðslur til starfsmanna smásöluverslunarinnar Somerfield. Þetta kemur fram í Viðskiptablaðinu í dag.

Viðræðurnar hafa staðið yfir í marga mánuði. Tæplega 113 milljarða króna vantaði í lífeyrissjóð Somerfield og höfðu stjórnarmeðlimir lífeyrissjóða áhyggjur af stöðunni ef fyrirtækið yrði tekið af hlutabréfamarkaði. Verði kauptilboðinu tekið munu félögin greiða niður skuldir lífeyrissjóðs Somerfield á afmörkuðu tímabili.

Lífeyrissjóðsmál voru einnig samningsatriði þegar drykkjarfyrirtækið Allied Domecq var nýlega keypt af franska keppinautnum, Pernod Ricard. Kaupverðið hljóðaði upp á rúmlega 860 milljarða króna.

Somerfield hefur staðið í viðræðum við tvö félög og telur annað þeirra m.a. fyrirtækin Apax Partners, Barclays Capital og Robert Tchenguiz, London Regional og fjárfestingarfélagið Livingstone brothers.

Þeir sem til þekkja segja að fyrst lífeyrissjóðsviðræðnum sé nú lokið, megi telja líklegt að kaupin verði frágengin á næstu vikum. Hlutabréf í Somerfield eru á genginu 197,5 pund en fyrirtækið er metið á um 113,67 milljarða króna.

Í apríl sl. gengu í gildi ný lög um lífeyrissjóði starfsmanna fyrirtækja. Lögin kveða á um að fjárhaldsmenn komi í veg fyrir sjóðsþurrð og eigi til innistæður fyrir ellilífeyriskröfum starfsmanna komi til gjaldþrota fyrirtækja. Þá er einnig hægt að gera hluthafa ábyrga fyrir lífeyrisgreiðslum til starfsmanna verði fyrirtæki gjaldþrota eftir að þeir keyptu hlutabréf í því.