Raunávöxtun Lífeyrissjóðs sjómanna nam á ársgrundvelli fyrstu sex mánuði ársins 20,8%, en var fyrir sama tímabil í fyrra 10%, sem var besta ár í sögu sjóðsins. Fjármagnstekjur fyrstu sex mánuði ársins námu rúmum 7,1 milljarði króna en voru 3 milljarðar á sama tíma í fyrra.

Þessa góðu afkomu má einkum rekja til góðrar ávöxtunar á innlendum hlutabréfum sjóðsins. Einnig var ávöxtun innlendra skuldabréfa góð á tímabilinu. Almennt hafa skilyrði á verðbréfamörkuðum verið afar góð það sem af er árinu.

Hrein eign til greiðslu lífeyris nam 63,6 milljörðum króna og hefur hækkað um 7,4 milljarða frá ársbyrjun. Eignir sjóðsins skiptast þannig að 60% eru í innlendum skuldabréfum, 20% í innlendum hlutabréfum og 20% í erlendum verðbréfum.

Stjórn Lífeyrissjóðs sjómanna hefur ákveðið að lækka vexti af lánum til sjóðfélaga í 4,3% úr 4,83%. Vaxtabreytingin tekur bæði til nýrra sem eldri lána.