Á stofnfundi sameinaðs sjóðs Lífiðnaðr og Samvinnulífeyrissjóðsins var samþykkt að sjóðurinn hlyti nafnið Stafir lífeyrissjóður. Greiðandi sjóðfélagar verða tæplega 10 þúsund manns og verður sjóðurinn sá fimmti stærsti. Heildareignir sameinaðs sjóðs eru áætlaðar um 67 milljarðar.

Á fundi stjórnar hins nýja sjóðs var Guðmundur Hjaltason kosinn formaður stjórnar og Haraldur Jónsson varaformaður. Ólafur Sigurðsson, sem verið hefur framkvæmdastjóri Lífeyrissjóðs Lífiðnar, verður framkvæmdastjóri sjóðsins.

Ársfundir beggja sjóða höfðu áður samþykkt samning um samruna þeirra. Samrunasamningur sjóðanna kveður á um að eignir og skuldbindingar þeirra renni saman frá og með 30. júní 2006. Heildareignir sameinaðs sjóðs eru áætlaðar um 67 milljarðar og eru greiðandi sjóðfélagar tæplega tíu þúsund.

Stafir verður fimmti stærsti lífeyrissjóður landsins. Áætlanir gera ráð fyrir að rekstrarhagræði sem hlýst við samruna hækki ellilífeyrisgreiðslur ef litið er til framtíðar. Að auki hefur stærri sjóður betri möguleika á að nýta sér tækni, hugvit og aðstæður á markaði en lítill sjóður. Gera má því ráð fyrir að þess sjáist merki í ávöxtun eigna sjóðsins og þjónustu hans við sjóðfélaga.

Nafnið Stafir er margrætt og vísar í senn til stuðnings, styrks og birtu, auk þess að standa fyrir grundvallareiningar ritmálsins í stafrófinu. Margræðni orðsins verður nýtt til að auðkenna ólíka þætti í þjónustu lífeyrissjóðsins. Upphafsstafir verður notað fyrir séreignaleið sem hentar ungum sjóðfélögum sem eru að hefja sparnað, Kjarnastafir verður leið fyrir þá sem kjósa að ávaxta séreign á sama hátt og samtryggingardeild sjóðsins. Að lokum verður eldri sjóðfélögum boðið upp á örugga ávöxtunarleið undir nafninu Sólstafir.

Á stofnfundi Stafa lífeyrissjóðs voru meðal annars samþykktar viljayfirlýsingar sem snúa að því að auka lýðræði, auka fjölskyldubætur og að því að iðgjaldi verði að hluta varið til öflunar lífeyrisréttinda í séreign og að hluta í sameign. Í stjórn næsta tímabil voru kosnir frá launþegum þeir: Haraldur Jónsson, Karl Stefánsson, Níels S. Olgeirsson og Sigurður Sigfússon. Frá atvinnurekendum: Arnbjörn Óskarsson, Erna Hauksdóttir, Guðbrandur Þ. Guðbrandsson og Guðmundur Hjaltason.

Byggt á frétt á heimasíðu landssambands lífeyrissjóða, www.ll.is