Kjarasamningar hafa mikil áhrif á rekstrarreikning sveitarfélaga landsins. Laun og launatengd gjöld aukast mikið milli ára. Þrátt fyrir þetta segir sérfræðingur hjá Íslandsbanka að staða sveitarfélaganna sé heilt yfir fín. Þau séu áfram að greiða niður langtímaskuldir. Alls eru 56 sveitarfélög með hámarksútsvar, 14,52%, en Reykjanesbær hefur frá í fyrra lagt sérstakt álag ofan á það og innheimtir 15,05% útsvar.

Heildargjöld sveitarfélaga landsins, sem eru 74 talsins, jukust um ríflega 24 milljarða króna á milli áranna 2014 og 2015 eða 9%. Er þá verið að tala um gjöld vegna A- og B-hluta. Munar þar mest um tæplega 12 milljarða króna aukningu á lífeyrisskuldbindingum, sem jukust um 136% milli ára. Vegna kjarasamninga, sem gerðir hafa verið, jókst launakostnaður sveitarfélaganna um 8% milli ára. Þetta kemur fram í skýrslu Greiningar Íslandsbanka um sveitarfélögin, sem kynnt verður í dag.

Heildartekjur sveitarfélaganna (A- og B-hluti) jukust um 13 milljarða milli ára eða 4%. Tekjurnar fóru úr 325 milljörðum árið 2014 í 338 milljarða í fyrra. Þar sem gjöld jukust hlutfallslega meira en tekjur dregst rekstrarniðurstaða (EBIDTA) A- og B-hluta saman. Hún fer úr tæpum 56 milljörðum í rúma 44 milljarða sem er um 20% samdráttur milli ára.

Jákvæðari þróun

Elvar Orri Hreinsson, sérfræðingur hjá Greiningu Íslandsbanka, segir að þegar rekstrarreikningur sveitarfélaganna sé skoðaður sé augljóst að hann litist mikið af hækkandi launakostnaði og auknum lífeyrisskuldbindingum.

"Við höfum aftur á móti líka verið að horfa veltufé frá rekstri og 150% skuldaviðmiðið," segir Elvar Orri. "Þegar það er gert þá sjáum við jákvæðari þróun milli ára. Þegar horft er framhjá áhrifum lífeyrisskuldbindinga og horft á sjóðsstreymi sveitarfélaganna þá blasir við öllu betri mynd.

Það er hægt að horfa á veltufé frá rekstri sem eiginlegan rekstur því þá er búið að leiðrétta fyrir liðum, sem eru ekki að fara úr kassanum, eins og afskriftum og lífeyrisskuldbindingum. Þegar búið er að leiðrétta fyrir lífeyrisskuldbindingum kemur í ljós að eiginlegur rekstur sveitarfélaganna batnaði milli ára. Staðan er því sú að fleiri sveitarfélög eru að standast skuldir og skuldbindingar sínar á árinu 2015 en árið 2014."

Hér vísar Elvar Orri til þess að þegar A- og B-hlutar eru skoðaðir kemur í ljós að 90% allra sveitarfélag í landinu stóðu undir skuldsetningu í fyrra samanborið við 88% árið 2014.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .