Samanlagt námu tekjur sveitarfélaganna 312,2 milljörðum króna í fyrra en gjöld námu 283,1 milljarði. Hér er verið að vísa í tölur úr rekstrarreikningi A- og B-hluta árið 2014. Gjöldin jukust um 8% milli ára eða 21,1 milljarð, reiknað á verðlagi ársins 2014. Frá árinu 2002 hefur kostnaður við rekstur sveitarfélaga aldrei aukist jafnmikið milli ára. Tekjuaukningin hefur ekki verið jafn lítil frá árinu 2011.

Lífeyrisskuldbindingar sveitarfélaganna jukust um 8,3 milljarða í fyrra samanborið við 2,6 árið 2013. Þessar breytingar á lífeyrisskuldbindingum haldast í hendur við kjarasamninga. Samanlagt námu laun, launatengd gjöld og breytingar á lífeyrisskuldbindingum 146,3 milljörðum króna í fyrra, sem jafngildir 47% af heildartekjum sveitarfélaganna. (A- og B-hluti).

Í efnahagsreikningi sveitarfélaganna kemur fram að skuldbindingar þeirra nema 65,5 milljörðum króna. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins er langstærsti hluti þessarar fjárhæðar lífeyrisskuldbindingar. Þannig er óhætt að segja að um síðustu áramót hafi þær verið á bilinu 60 til 65 milljarðar. Til samanburðar má geta þess að árið 2010 námu lífeyrisskuldbindingar sveitarfélaganna um 45 milljörðum, sem þýðir að á faeinum árum hafa þær aukist um 50%.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .