Lífeyrissparnaður landsmanna nam 6.037 milljörðum króna í árslok 2020 og jókst um 14,9% á milli ára. Lífeyrissparnaður sem hlutfall af vergri landsframleiðslu er um 206% en eingöngu Danmörk og Holland er með hærra hlutfall sé litið talna OECD. Þetta kemur fram í nýrri greiningu frá Seðlabankanum .

Eignir samtryggingardeilda lífeyrissjóðanna voru 5.129 milljarðar í lok árs sem er 6% aukning á milli ára. Séreignasparnaður í vörslu sjóðanna jókst um 16% á árinu og nam 594 milljörðum króna í lok árs og séreignasparnaður í vörslu annarra en sjóðanna jókst einnig um 16% og nam 334 milljörðum.

Afborganir og vaxtagreiðslur sem er stærsti liðurinn í sjóðsstreymi hjá samtryggingar- og séreignardeildum lífeyrissjóðanna nam um 403 milljörðum króna í fyrra. Sjóðirnir keyptu skuldabréf fyrir um 494 milljarða króna í fyrra og hlutabréf fyrir um 565 milljarða. Mismunur innstreymis og útstreymis iðgjalda vegna lífeyris nam 86 milljörðum króna á árinu. Iðgjöld stóðu í stað á milli ára en útgreiðslur jukust um 11% sökum lægra atvinnustigs og aukinna útgreiðsla vegna faraldursins.

Hrein raunávöxtun á árinu var 9,12% sem er næstum þremur prósentustigum minna en árið á undan þegar að raunávöxtun var 11,95%. Ávöxtun samtryggingardeilda lífeyrissjóðanna var 9,63 og ávöxtun séreignarsparnaðar þeirra var 8,17%. Ávöxtun séreignasparnaðar annarra vörsluaðila nam 5,63% á tímabilinu.