Lífeyrissparnaður landsmanna nam 5.284 milljörðum króna í árslok 2019 og jókst um 17% milli ára, en þetta kemur fram í nýrri samantekt Seðlabanka Íslands úr ársteikningum lífeyrissjóðanna . Sem hlutfall af landsframleiðslu er hann 178% en einungis Danmörk (219%) og Holland (191%) eru með hærra hlutfall, samkvæmt bráðabirgðatölum OECD.

Á liðnu ári störfuðu 21 lífeyrissjóður í 25 samtryggingardeildum og af þeim buðu 16 sjóðir upp á séreignarsparnað í 45 deildum. Aðrir innlendir vörsluaðilar séreignarsparnaðar voru eins og áður fimm talsins og buðu upp á sparnað í 30 séreignardeildum. Tveir erlendir vörsluaðilar buðu upp á lífeyrisafurðir sem flokkast sem séreignarsparnaður.

Eignir samtryggingardeilda lífeyrissjóðanna námu við árslok 4.459 milljarða króna og jukust um nærri 17% milli ára. Séreignarsparnaður í vörslu sjóðanna var 510 milljarðar króna sem var 20% aukning frá árinu á undan. Séreignarsparnaður í vörslu annarra en lífeyrissjóða nam 314 milljörðum króna og jókst um 16%.

11,5% raunávöxtun á síðasta ári

Ávöxtun lífeyrissparnaðar landsmanna á liðnu ári var mun betri en árið 2018 og nam hrein raunávöxtun 11,48% samanborið við 1,95% árið á undan. Alþjóðlega var raunávöxtun lífeyrissjóða árið 2019 góð og var ávöxtun íslenskra sjóða meðal sex efstu landa.

Ávöxtun samtryggingardeilda og séreignarsparnaðar lífeyrissjóðanna árið 2019 nam annars vegar 11,97% og hins vegar 9,97%. Ávöxtun séreignarsparnaðar annarra vörsluaðila nam 4,1% á sama tíma. Hrein ávöxtun samtryggingardeilda síðastliðin 25 ár hefur verið að meðaltali 4,52%. Að jafnaði er ávöxtun séreignarsparnaðar nokkru lægri en samtryggingardeilda lífeyrissjóða. Því veldur að eignsafn þeirra er að mestu innlán og skuldabréf sem að jafnaði skila lægri ávöxtun en aðrar eignir.

Keyptu hlutabréf fyrir 440 milljarða

Afborganir og vaxtagreiðslur hjá samtryggingar- og séreignardeildum lífeyrissjóðanna og námu um 304 milljarða króna á liðnu ári. Samkvæmt sjóðstreymi keyptu sjóðirnir skuldabréf fyrir um 390 milljarða króna og hlutabréf fyrir um 440 milljarða. Innborgaðar tekjur af eignarhlutum í félögum og sjóðum (arðgreiðslur) voru einnig stór liður í sjóðstreymi og námu nærri 29 milljörðum. Fjárfestingaþörf sjóðanna á yfirstandandi ári var því um 428 milljarða króna.

Mismunur innstreymis iðgjalda og útstreymis vegna lífeyris nam nærri 95 milljörðum króna. Í skýrslu Seðlabankans segir að mismunur iðgjalda og lífeyris mun fara minnkandi á næstu árum vegna aukinnar lífeyrisbyrði eftir því sem fjölmennari kynslóðir, með aukin réttindi, fara á lífeyri.

Ófjármagnaðar skuldbindingar lífeyrissjóða ríkis og sveitarfélaga nema 806 milljörðum

Á liðnu ári nam hlutfall fjárfestingargjalda af heildareignum að meðaltali (vegið meðaltal) um 0,30% hjá samtryggingardeildum lífeyrissjóða, 0,26% hjá séreignardeildum lífeyrissjóða en 0,32% hjá öðrum innlendum vörsluaðilum.

Tryggingafræðileg staða samtryggingardeilda almennra lífeyrissjóða batnaði á síðasta ári. Hún varð jákvæð um 75 milljarða í árslok, samanborið við 55 milljarða halla árið áður. Sjö af 21 samtryggingardeild almennu lífeyrissjóðanna hafa jákvæða tryggingafræðilega stöðu en fjórtán deildir hafa neikvæða stöðu.

Allar fjórar samtryggingardeildir lífeyrissjóða ríkis og sveitarfélaga með ábyrgð launagreiðenda hafa neikvæða tryggingafræðilega stöðu. Ófjármagnaðar skuldbindingar þeirra nema 806 milljörðum króna sem jafngildir 68% halla á tryggingafræðilegri stöðu. Staða deilda með ábyrgð ríkis og sveitarfélaga var neikvæð um 780 milljarða í árslok 2018.