*

fimmtudagur, 5. ágúst 2021
Innlent 2. mars 2021 11:45

Lífeyrissparnaður jókst um 773 milljarða

Erlendar eignir lífeyrissjóða juskust um 426 milljarða króna eða um 25% á síðasta ári.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Lífeyrissparnaður landsmanna jókst um 773 milljarða króna eða um 4,6% á síðasta ári. Við árslok voru heildareignir lífeyrissparnaðarins ríflega 6.050 milljarða króna, samkvæmt bráðabirgðatölum Fjármálaeftirlits Seðlabankans. Lífeyrissparnaður landsmanna nemur því tvöfaldri landsframleiðslu Íslands árið 2020. 

Eignir samtryggingardeilda lífeyrissjóða jukust um 15% árið 2020 og námu 5.119 milljarða við árslok. Eignir samtryggingardeildanna í hlutdeildarskírteinum UCITS-sjóða hækkuðu um 325 milljarða, nærri 32% hækkun, en eignir þessara sjóða er að mestu í erlendum verðbréfum. Eignir í hlutabréfum og skuldabréfum félaga jukust um 19% og 17% eða samtals um 135 milljarða króna. 

Mikið var um uppgreiðslur á sjóðafélagalánum á liðnu ári sem leiddi til lækkunar á fasteignaveðtryggðum skuldabréfum eða um nærri fimm milljarða króna. Hlutdeild ríkisvíxla og skuldabréfa í eignasafni samtryggingardeilda lífeyrissjóðanna lækkaði hins vegar lítilsháttar á síðasta ári.  

Séreignarsparnaður á vegum lífeyrissjóðanna nam 595 milljörðum króna. Eignir hjá innlendum vörsluaðilum séreignarsparnaðar voru 247 milljarðar króna og um 100 milljarðar króna voru hjá erlendum aðilum sem bjóða séreignarsparnað í sérsniðnum lífeyristryggingum. 

Erlendar eignir lífeyrissjóðanna jukust um 426 milljarða króna eða um 25% en það er meira en helmingur aukningar lífeyrissparnaðarins á árinu.