*

miðvikudagur, 26. janúar 2022
Innlent 2. júní 2020 15:44

Lífeyrissparnaður lækkar um 8 milljarða

Áhrif Covid á fjármálamarkaði lækkaði heildarlífeyrissparnað landsmanna niður um rúmlega 8 milljarða króna.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Lífeyrissparnaður samtryggingar og séreignar dróst saman um nærri 8 milljarða króna á fyrsta ársfjórðungi ársins og nam 5.173 milljörðum króna. Áhrif vegna faraldursins voru umtalsverð á innlendum og erlendum fjármálamörkuðum við lok fyrsta ársfjórðungs en þetta kemur fram í nýju mati Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands.

Helstu breytingar í eignaflokkum eru þær að eignarhlutir í sjóðum um sameiginlega fjárfestingu jukust um nærri 21 milljarð króna og innlán um nærri 33 milljarða króna. Veruleg lækkun var á hlutabréfum eða um 109 milljarða króna en bréfin eru að meginhluta innlend. 

Nærri þriðjungur í erlendum eignum

Erlendar eignir samtryggingar og séreignar námu 1.678 milljörðum króna eða um 32% af heildareignum. Stærstur hluti erlendra eigna er í verðbréfasjóðum og hlutabréfum. Þær eignir lækkuðu umtalsvert í erlendum gjaldmiðli sem gengislækkun íslensku krónunnar vó upp að mestu leyti. 

Heildareignir í vörslu fimm stærstu lífeyrissjóðanna, LSR, Lífeyrissjóðs verzlunarmanna, Gildis, Birtu og Frjálsa námu í árslok um 3.220 milljarða króna eða um 62% af heildarlífeyrissparnaði í samtryggingu og séreign. Heildareignir LSR námu um 1.000 milljarða króna, Lífeyrissjóðs verzlunarmanna 854 milljarða, Gildis 653 milljarða, Birtu 425 milljarða og Frjálsa um 287 milljarða króna. 

Lækkun innlendra hlutabréfa hafði veruleg áhrif

Helstu breytingar á eignaflokkum samtryggingardeilda lífeyrissjóðanna eru þær að eignir í hlutabréfum lækkuðu verulega eða um nærri 103 milljarða króna sem að mestu má rekja til lækkunar innlendra hlutabréfa. Á sama tíma jukust innlán um 24 milljarða króna og var sú aukning nánast að öllu leyti í erlendum gjaldmiðlum.

Fasteignaveðtryggð útlán jukust einnig um nærri 24 milljarða króna sem má rekja til aukinna útlána til sjóðfélaga. Veruleg hækkun var einnig í hlutdeildarskírteinum annarra sjóða um sameiginlega fjárfestingu (e. non UCITS) eða um rúmlega 37 milljarða króna sem að stórum hluta má rekja til veikingar krónunnar. Þessar eignir eru að mestu óskráðir fjármálagerningar og því óvissa um verðmat til lengri tíma.