Stjórnmálaskoðanir manna grundvallast ekki endilega á uppeldi eða félagslegum aðstæðum þeirra í eins miklum mæli og hingað til hefur verið talið. Þær hafa mun sterkari tengsl við líffræðilega, sálfræðilega, lífeðlisfræðilega og jafnvel erfðafræðilega þætti en áður var talið.

Þannig er gjarnan töluverður mælanlegur munur á líffræðilegum þáttum og persónueinkennum þeirra sem aðhyllast frjálslyndar stjórnmálaskoðanir annars vegar og íhaldssamar skoðanir hins vegar. Þetta kemur fram í vísindatímaritinu Behavioral and Brain Sciences. Niðurstöður rannsókna seinustu ára hafa breytt hugmyndum um að ólíkar aðstæður manna, eins og til dæmis efnahagur, hafi mest áhrif á hvaða stjórnmálaskoðanir fólk aðhyllist síðar á ævinni.