Þrettán manna hópur frá Spron, í samstarfi við Hjálparstarf Kirkjunnar, lagði leið sína til Malaví í Suð-Austur Afríku í byrjun mánaðar. Markmið ferðarinnar var að fylgja eftir verkefni sem Spron styrkir þar ytra, byggingu á vatnsbrunnum á einu fátækasta svæði veraldar, Chikwawa héraði í Suður-Malaví.

Erfitt er að lýsa með orðum þeirri upplifun sem því fylgir að komast í návígi við ástand sem flestir vita, í gegnum fjölmiðla og frásagnir, að ríkir í löndum Afríku. Eitt er að vita hvernig ástandið er í fátækum ríkjum á borð við Malaví og annað er að upplifa það frá eigin hendi. Fátæktin er gríðarleg og eymdarlegar aðstæður þeirra sem þarna búa voru oft á tíðum yfirþyrmandi. Gleðin var þó ríkjandi hjá innfæddum í Chikwawa héraði sem þykir hálfótrúlegt miðað við þær hörðu aðstæður sem fólkið býr við. Ljóst er þó að daglega lífið í Malaví er heldur ólíkt daglega lífinu á Íslandi.

Jóhanna Sveinsdóttir blaðamaður Viðskiptablaðsins var með í ferðinni og tók frábærar myndir sem hægt er að skoða í helgarblaði Viðskiptablaðsins.