Óhætt er að segja að árið 2018 hafi farið af stað með miklum hvelli á alþjóðlegum hlutabréfamörkuðum.

Fram að 26. janúar hækkaði MSCI World vísitalan um rúm 6,9% og S&P500 um 7,45%. Þýski DAXinn hækkaði um nær 5% fram að 23. janúar, Nikkei 225 í Japan hækkaði um tæp 6% á þessum sömu dögum, en breska FTSE vísitalan stóð nánast í stað yfir þetta tímabil. Stuttu síðar fóru vindar að snúast og markaðsað- ilar fengu áminningu um að lífið væri ef til vill ekki alltaf dans á rósum.

Á fáeinum dögum hrapaði S&P500 um rúm 10% og hófust lækkanir af alvöru þegar febrúar gekk í garð. Þegar þetta er skrifað stendur umrædd vísitala í 2.656 stigum og er því nær 6 prósentum fyrir neðan janúar hágildið. Hækkanir síðasta árs hafa átt sér fá fordæmi. Lækkunin er því ekki óeðlileg og vilja margir meina að um saklausa leiðréttingu sé að ræða. Aðrir telja þó að frekari blikur séu á lofti.

Hafa verið í meðbyr

Mikilvægt er að horfa á stóra samhengið og því getur verið gott að taka nokkur skref aftur. Sé litið til Bandaríkjanna, má í raun fullyrða að fjárfestar hafi að mestu siglt seglum þöndum frá því að markaðir náðu botnpunkti í mars 2009. Sigurgangan hefur vissulega ekki verið stanslaus. Árið 2015 lækkaði hlutabréfaverð alþjóð- lega um nær 20% þegar fjárfestar óttuðust allt það versta í Kína.

Heilt yfir ættu þeir sem gerðu kjarakaup eftir hrunið að vera sáttir með ávöxtun síðustu ára. Þrátt fyrir leiðréttingu mánað- arins, hefur S&P500 til að mynda hækkað að nafnvirði um rúm 230% frá botnpunktinum 2009. Bandarískur fjárfestir sem hefði hermt eftir S&P500 vísitölunni frá byrjun marsmánaðar 2009 fram að lok janúar 2018, hefði því náð tæplega 341% í nafnávöxtun yfir tímabilið, hefði sá og hinn sami endurfjárfest arðgreiðslum.

Þetta er um 18,3% nafnávöxtun á mánuði. Verðbólga hefur verið lág og því er þetta um 280% raunávöxtun eða 16,3% á mánuði. Sambærilega sögu er að segja af þeim sem hefðu hermt eftir Dow Jones Industrial Average. FANG bréfin, sem nefnd eru í höfuðið á Facebook, Amazon, Netflix og Google, hefðu svo skotið fjárfestum rakleiðis til tunglsins síðustu ár. Gífurleg bjartsýni hefur verið í tæknigeiranum og hafa þessi fyrirtæki fengið að njóta góðs af alþjóðavæðingu sem á sér enga hliðstæðu. Facebook hefur á síðustu fimm árum til að mynda hækkað að nafnverði um 522%, Amazon um rúm 405%, Netflix um 853% og Google sem gengur í dag undir nafninu Alphabet um tæplega 170%.

Flóttaleiðirnar fáar

Virðisfjárfestar hafa einnig átt erfitt með að finna tækifæri síðustu ár og hafa bent á að kennitölur séu komnar á bólusvæði. Hvort sem litið er á V/H, V/I, EV/EBITDA eða aðrar kennitölur er auðvelt að skilja áhyggjur þeirra. Samkvæmt SaxoBank eru þessar helstu kennitölur nú um 0,5 staðalfrávikum fyrir ofan 22 ára meðaltal MSCI World vísitölunnar. CAPE hlutfallið fyrir S&P500, sem gjarnan er nefnt Shiller V/H hlutfallið, stendur svo í 32,14 þegar þetta er skrifað en meðaltal þess er 16,83. Ef spár greiningaraðila ganga eftir og uppgjör fyrirtækja halda áfram að slá í takt við væntingar markaðsaðila má alveg færa rök fyrir verðmiðunum. Það má þó ekki mikið bregða út af, því eftir síðasta skell er auðvelt að styggja markaðinn enn frekar og þá eru flóttaleiðirnar fáar. Sérstaklega ef allir vilja rjúka út. Fjárfestar finna ef til vill enn þá hagstæð tækifæri í Evrópu, á Norðurlöndunum og á sumum nýmörkuðum. Eignadreifing skilar þó takmörkuðum árangri. Með henni má í besta falli útrýma áhættu sem tengist fyrirtækjum og geirum, en kerfislæg áhætta er alltaf til staðar. Alþjóðavæðingin hefur einfaldlega sett alla í sömu snöru og erfitt er að finna eignaflokka með neikvæða fylgni í núverandi umhverfi.

Framtíðin óljós

Sama hvenær eða hvernig næsta alþjóðlega kreppa mun birtast, er mikilvægt að markaðsaðilar hafi hugfast að ekkert varir að eilífu. Helstu hlutabréfavísitölur heimsins standa þrátt fyrir allt enn í sögulegum hæðum og erfitt er að finna góð tækifæri í núverandi umhverfi. Þeir sem þekkja ekki söguna eru dæmdir til þess að endurtaka mistök. Fyrir almenna fjárfesta er líklegast best að draga verulega úr áhættu og að sýna þolinmæði, reynslumeiri fjárfestar ættu að vera löngu byrjaðir að kaupa tryggingar. Aðrir geta reynt að krossleggja fingur, en það telst þó líklegast ekki vera góð áhættustýring.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .