Tæplega 600 hótelherbergi hafa verið tekin í notkun það sem af er þessu ári hér á landi en á næstu þremur til fjórum árum verða 3.000 til 3.500 herbergi tekin í notkun á landinu.

Þetta er eitt af því sem fram kom á ráðstefnu Öryggismiðstöðvar Íslands, þar sem kynntar voru nýjustu lausnir í öryggismálum hótela, meðal annars ný lausn þar sem gestir geta notað snjallsímann sinn til að opna herbergið sitt í stað þess að nota lykla eða kort.

Guy Martin frá Assa Abloy Hospitality/Ving Card, sem er mest selda lyklakerfi í heiminum en aðgangskerfi fyrirtækisins eru notuð í yfir 7 milljónum hótelherbergja um allan heim, kynnti meðal annars til sögunnar tækninýjung, sem sparað gæti tíma og kostnað, bæði fyrir hóteleigendur og gesti.

Í stað þess að þurfa að koma við á afgreiðsluborði hótelsins, jafnvel bíða þar í röð, og sækja lyklakort gæti gesturinn með tilkomu þessarar nýju tækni farið beint upp á hótelherbergið og opnað það með aðgangslykli sem sendur var beint í símann við pöntunina.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð.