Stjórnir Samvinnulífeyrissjóðsins og Lífeyrissjóðsins Lífiðnar hafa á undanförnum mánuðum átt í könnunarviðræðum um sameiningu sjóðanna. Í framhaldi af þeim hefur verið ákveðið að stefna að sameiningu sjóðanna um næstu áramót. Í könnunarviðræðunum hefur verið farið yfir uppgjör sjóðanna og trygginga- fræðilegar úttektar.


Stjórnir sjóðanna gerðu með sér samkomulag í febrúar síðastliðnum um að kanna hvort hagkvæmt geti verið að sameina sjóðina tvo. Tilgangur sameiningar væri að auka hagkvæmni í rekstri og bæta þjónustu við sjóðfélaga og launagreiðendur, ásamt því að efla eignastýringu. Náist markmið sameiningar mun það leiða til styrkrar tryggingafræðilegrar stöðu sameinaðs sjóðs. Á næstu mánuðum er ætlunin að ljúka við vinnu tengda sameiningarferlinu. Áætlað er að halda aukaársfund í nóvember hjá hvorum sjóði fyrir sig til að bera samþykktarbreytingar er lúta að sameiningu undir atkvæði. Ætlunin er að endanleg sameining sjóðanna verði frá og með næstu áramótum. Stefnt er að myndun bráðabirgðarstjórnar með fjórum aðilum frá hvorum sjóði sem situr fyrstu tvö árin og á því tímabili myndi stjórnin vinna að framtíðarskipulagi varðandi stjórnarkjör.