Samkeppniseftirlitið hefur heimilað kaup Líflands ehf. á 50% hlutafjár í Nesbúeggjum ehf. Lífland átti fyrir kaupin helmingshlut í félaginu og mun því eitt fara með yfirráð yfir fyrirtækinu í kjölfar kaupanna.

Lífland eignaðist helmingshlut í félaginu árið 2014. Þá var ekki talinn ástæða til íhlutunar þar sem lítið benti til þess að samkeppni myndi raskast. Eftirlitið taldi ekki heldur ástæðu til íhlutunar í þetta sinn þar sem fáar breytingar eru fyrirhugaðar á starfseminni.

Lífland kaupir helmingshlutinn af hjónunum Hjördísi Ásberg og Hjörleifi Þór Jakobssyni. Þórir Haraldsson og framtakssjóðurinn Horn III eiga sitthvorn helmingshlutinn í Líflandi.

Sjá einnig: Samdráttur í hagnaði Líflands

Lífland framleiðir og selur húsdýrafóður og á þar að auki 100% hlut í hveitiframleiðslunni Kornax ehf. Nesbúegg á um þriðjung allra varphæna í landinu og Lífland selur félaginu fóður til eggjaframleiðslu.