Samkvæmt upplýsingum frá bílaumboðunum hefur gengið verulega á notaða bíla og fyrirsjánlegt að það verði skortur á nýlegum bílum í ódýrari verðflokkum. Að sögn Jóns Trausta Ólafssonar, markaðsstjóra Heklu, hefur gengið verulega á notaða bíla hjá þeim.

Hekla var með um 800 notaða bíla á skrá um síðustu áramót en nú eru þeir um 300. Sagði Jón að nú væri hreinlega orðið vöntun á 2007 og 2008 árgerðum. Jón benti einnig á að minna væri um að bílum væri skilað í afskráningu þannig að augljóst sé að fólk haldi lengur í bíla.

Úlfar Hinriksson, forstjóri Suzuki á Íslandi, sagði lager þeirra af notuðum bílum hefði lækkað um 30 til 40% frá áramótum og sagði hann að sala hefði verið mjög góð á nýlegum bílum upp að tveggja milljóna króna markinu. ,,Þetta gerist alltaf þegar sala á nýjum bílum gengur niður,” sagði Úlfar. Hann benti á að til að endurnýjun héldist á bílaflotanum yrði að selja á milli 10 og 12 þúsund bíla. Þar sem það væri hald margra að aðeins seldust um 2.000 nýir bílar þetta árið þá væri ljóst að verulega gengi á flotan sem hefði áhrif á sölu notaðra bíla. ,,Annars erum við ekki að kvarta hér hjá Suzuki, við erum búnir að selja fleiri bíla en í sama mánuði og í fyrra.”

Að sögn Páls Þorsteinssonar, upplýsingafulltrúa Toyota á Íslandi, eru  þessa mánuðina að seljast 250 - 300 notaðir bílar á mánuði hjá Toyota söluaðilum á landinu, og verður því markaðurinn að teljast nokkuð líflegur. Páll sagði að eins og alltaf sé eftirspurnin mest eftir nýlegum bílum á góðu verði.