*

laugardagur, 14. desember 2019
Innlent 9. nóvember 2018 12:31

Líflegar umræður á Peningamálafundi VÍ

Hinn árlegi Peningamálafundur Viðskiptaráðs fór fram í gær og bar hann yfirskriftina „Hávaxtaland að eilífu?"

Ritstjórn
Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, hélt erindi á fundinum.
Haraldur Guðjónsson

Hinn árlegi Peningamálafundur Viðskiptaráðs fór fram í gær og bar hann yfirskriftina „Hávaxtaland að eilífu?" enda haldinn í kjölfar vaxtahækkunar Seðlabankans. Að vanda voru líflegar umræður og margt áhugavert kom fram. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Viðskiptaráði Íslands. 

Ásta S. Fjeldsted, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs fjallaði um mikilvægi þess að hagstjórnin í heild rói saman að því markmiði að bæta lífskjör og tryggja verðstöðugleika. „Sú vísa verður aldrei of oft kveðin og það er hagsmunamál stjórnvalda, viðskiptalífsins og almennings að tryggja bæði efnahagslegan stöðugleika og verðstöðugleika. Það er sjaldan jafn mikilvægt að muna þetta eins og núna þegar kjaraviðræður fara í hönd". Ásta minnti líka á að ef Seðlabankinn gengi of langt í vaxtahækkunum geti það skert samkeppnishæfni landsins. 

Samkeppnishæfni ofarlega í huga

Samkeppnishæfni var einnig hagfræðingi Viðskiptaráðs og fundarstjóra, Konráði S. Guðjónssyni, hugleikin. Hann benti á að einungis í tveimur löndum af þeim 63 sem taka þátt í úttekt IMD viðskiptaháskólans á samkeppnishæfni, sé minni trú meðal stjórnenda á að stefna Seðlabankans hafi jákvæð áhrif á efnahagslífið. Þá virðist sem fólki greini verulega á um hvaða áhrif aðgerðir seðlabankans hafa, en tæplega helmingur svarenda í óformlegri könnun meðal fundargesta telja að hækkun vaxta leiði til hærra verðlags, þvert á tilgang Seðlabankans með slíkum aðgerðum. 

Seðlabankastjóri fór yfir stöðu og horfur í efnahagsmálum

Í ræðu sinni fór seðlabankastjóri Már Guðmundsson ítarlega yfir stöðu og horfur í efnahagsmálum og samspil þess við peningastefnuna. Fagnaði hann áralangri hefð Peningamálafundar Viðskiptaráðs sem gæfi Seðlabankanum tækifæri til að gera betur grein fyrir stefnu bankans. Már fór yfir þann árangur sem náðst hefur síðustu ár í hagstjórn og efnahagslífinu en að nú væru þeir þættir sem fallið hafa með okkur að fjara út og stýra þyrfti mjúkri lendingu. Framundan sé minni hagvöxtur eða um 2,6% næstu 3 árin og minni rauntekjuaukning hjá þjóðinni. Hann fjallaði líka um nýlega vaxtahækkun bankans sem helgast af því að verðbólga og verðbólguvæntingar þokast upp á viði. „Almennt er leitast við að hafa vexti Seðlabankans eins lága og hægt er en jafnframt eins háa og nauðsynlegt er".

Aðspurður að loknu erindi sínu sagði hann þó að ef hófsamar launahækkanir séu framundan kunni vel að vera að vextir muni lækka aftur. Í ræðunni gerði seðlabankastjóri einnig grein fyrir lækkun á sérstaka bindiskyldu vegna innstreymis erlends gjaldeyris, oft kölluð innflæðishöft í daglegu tali. Stefnt er að því að þau verði afnumin þegar vaxtamunur við útlönd, gengi krónunnar og aðrar aðstæður gefa tilefni til. 

Pallborðsumræður

Í framhaldinu hófust pallborðsumræður. Fyrstur á stokk steig Sveinn Sölvason, fjármálastjóri Össurar. Hann sagði að veiking krónunnar undanfarið væri vissulega góð fyrir fyrirtæki í alþjóðlegri samkeppni en í tilfelli stórs fyrirtækis eins og Össurar, þar sem rétt um 10% af heildarveltu fyrirtækisins er í krónum, skipti hún sífellt minna máli. Öðru máli gegni fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki sem eru að hasla sér völl í erlendri samkeppni.  Gagnvart þeim eru sveiflurnar mjög vondar en Sveinn nefndi að sveiflur hér séu meiri en í þeim 30 löndum sem þeir starfa í um heim allan.  

Næst steig á svið Friðrik Már Baldursson, prófessor við Háskólann í Reykjavík. Hann telur að aukin áhersla á þjóðhagsvarúð sé skiljanleg því fjármálakreppan kenndi okkur að hefðbundin peningastefna sé ekki eins máttug og áður var talið. Sjálfstæði peningastefnu er í raun minna en við töldum og til þess að vaxtamunur við útlönd sé ekki of mikill þurfi hagstjórnin að vera í lagi. 

Varðandi hvernig Seðlabankinn getur aukið traust og trúverðugleika telur Rannveig Sigurðardóttir, nýlega ráðin aðstoðarseðlabankastjóri, að bankinn þurfi fyrst og fremst að tala við sem flesta svo að sem flestir skilji. Rannveig spurði salinn hvort fundargestir væru nú betur upplýstir eftir ræðu seðlabankastjóra um hvers vegna Seðlabankinn hækkaði vexti sl. miðvikudag og á að giska helmingur fundargesta rétti upp hönd. Rannveig sagði einnig að það væri betra ef verkalýðshreyfingin myndi setja fram kröfur í formi aukins kaupmáttar fremur en launahækkunum. „Við getum öll verið sammála um það, er það ekki?". Loks hugnast henni illa þær áætlanir um að fjármálstöðugleiki sé framar í forgangsröðinni en verðstöðugleiki. „Ef ég væri ekki aðstoðarseðlabankastjóri myndi ég segja að tillaga um aukna áherslu á fjármálastöðugleika væri arfavitlaus, en af því að ég er hjá Seðlabankanum segi ég bara að hún sé ekki góð". 

Vaxtastig alltaf hærra hér en í löndunum í kringum okkar

Loks mætti til leiks Hrund Rudolfsdóttir, forstjóri Veritas, sem sagði að sleppa mætti spurningamerkinu í titli fundarins: Hávaxtaland til eilífðar? Ískaldur íslenskur veruleiki sé að vaxtastig verði alltaf hærra hér en í löndunum í kringum okkur og við gætum því hætt að vera hissa á þessum vaxtahækkunum. Hún segir að peningastefnan og vaxtaumhverfið geri fyrirtækjum í innlendri þjónustustarfsemi oft lífið leitt. Það sé kostnaðarsamt fyrir íslensk fyrirtæki sem greiði hlutfallslega meiri launakostnað en flest önnur ríki í heiminum. Þar að auki eru opinberar álögur oft á tíðum íþyngjandi, eins og t.d. miklar hækkanir fasteignagjalda síðustu ár.  

Að lokum var fjallað um komandi kjarasamninga og hvað væri hægt að gera til að ekki verði ósjálfbærar launahækkanir sem auki verðbólgu og kalli á hærra vaxtastig. Allir þeir sem stóðu í pallborði voru sammála um að margt væri hægt að gera til að liðka fyrir þeim og það sneri helst að stjórnvöldum. Breyta megi t.d. bóta- og tekjuskattskerfum, gera átak í húsnæðismálum og skapa fyrirtækjum svigrúm til þess að greiða hærri laun með minni opinberum álögum, svo eitthvað sé nefnt. 

Stikkorð: Viðskiptaráð Íslands