Hlutabréfaviðskipti á aðalmarkaði íslensku kauphallarinnar námu 3,4 milljörðum króna í dag. Úrvalsvísitalan OMXI10 hækkaði um 0,19% í viðskiptum dagsins og stendur fyrir vikið í 3.400,62 stigum.

Gengi tólf félaga hækkaði í dag, mest hjá Íslandsbanka en bréf bankans hækkuðu um 1,63%. Þá hækkaði gengi Origo um 1,43% og gengi VÍS um 0,97%.

Bréf fjögurra félaga lækkuðu og lækkaði gengi bréfa í Iceland Seafood International mest, um 3,36%. Þá lækkuðu bréf Skeljungs um 2,10%, bréf Símans um 0,83% og bréf Reita um 0,58%.

Mest var velta með bréf Marel en viðskipti með bréfin námu 629,3 milljónum króna. Þá nam velta með bréf Arion banka 376 milljónum og velta með bréf Origo 373,1 milljón.

6 milljóna velta á First North

Velta á First North markaði nam um sex milljónum króna í dag sem er nokkuð meiri velta en gengur og gerist almennt á hliðarmarkaðinum.

Mest var velta með bréf Play en gengi þeirra lækkaði um 0,86% í þriggja milljóna króna viðskiptum. Velta með bréf Kaldalóns nam tveimur milljónum króna en gengi bréfanna stóð í stað. Velta með bréf Solid Clouds nam einni milljón og hækkaði gengi þeirra um 5,88%. Mest hækkaði gengi Klappa, um 11,03%, í 100 þúsund króna viðskiptum.