Heildarvelta með hlutabréf á aðalmarkaði Kauphallarinnar nam 7 milljörðum króna í dag, sem er nokkuð hressilegt. Flest bréf hækkuðu í viðskiptum dagsins, og þau fáu sem lækkuðu gerðu það aðeins lítillega. Úrvalsvísitalan hækkaði um 2,34%.

Athygli vekur að Festi hækkaði aðeins um 0,94% í 763 milljóna viðskiptum dagsins, þrátt fyrir jákvæða afkomuviðvörun í morgun.

Eimskip leiddi hækkanir dagsins með 3,62% hækkun í 620 milljóna króna viðskiptum, Marel fylgdi fast á hæla þess með 3,20% hækkun í rétt tæplega milljarðsviðskiptum, og Icelandair vermdi þriðja sætið með 2,69% eftir 143 milljóna viðskipti.

Eik lækkaði mest, um 0,88% í 385 milljóna viðskiptum, en aðrar lækkanir dagsins voru Origo með 0,81% í 233 milljónum, Hagar með 0,76% í 158 milljónum, og Íslandsbanki lækkaði um 0,17% í 318 milljóna króna viðskiptum.

Mest var velta með bréf Arion banka í dag, sem hækkuðu um 2,31% í tæplega 2 milljarða króna viðskiptum. Næst kemur Marel með áðurnefnd 986 milljóna króna viðskipti, og Festi var þriðja veltumesta félagið.