Þjóðskrá Íslands hefur tekið saman upplýsingar um veltu á fasteignamarkaði eftir landshlutum í september 2020 samkvæmt þinglýstum gögnum. Fjöldi fasteigna sem gekk kaupum og sölum á landinu öllu var 1.420 talsins og var upphæð viðskiptanna tæplega 69 milljarðar króna þegar miðað er við útgáfudagsetningu.

Kaupsamningum fjölgaði um 9,8% frá síðasta mánuði og velta hækkaði um 12,9%. Á höfuðborgarsvæðinu fjölgaði samningum með íbúðarhúsnæði um 7,7% á milli mánaða og velta hækkaði um 13,7%. Í samanburði við september á síðasta ári jókst velta á fasteignamarkaði um 36,5% og samningum fjölgaði um 23,5%.

Það sem af er ári hafa 9.570 kaupsamningar verið gerðir, en þeir hafa ekki verið fleiri á fyrstu þremur ársfjórðum síðan árið 2007. Í september það ár var fjöldi kaupsamninga orðinn 11.762 en snarlækkaði á árunum eftir fjármálahrun og fór lægst árið 2009 þegar fjöldi kaupsamninga fyrstu þrjá ársfjórðunga var 2.629. Í fyrra var fjöldi kaupsamninga á fyrstu þremur ársfjórðungum 8.795.

Núverandi efnahagsniðursveifla hefur farið mildari höndum um fasteignamarkaðinn en fjármálakreppan á sínum tíma, enda hefur fasteignamarkaðurinn sjaldan verið blómlegri en einmitt um þessar mundir.