Viðsnúningur hefur verið í þróun gengis hlutabréfa hérlendis. Lægst fór Úrvalsvísitalan (OMXI10) í tæplega 1.600 stig í marsmánuði en í lok október var hún í rúmlega 2.200 stigum. Vísitalan hefur því hækkað um 40% síðan þá og er í sögulegu hámarki. Þróun á gengi vísitölunnar er þó ekki svo lýsandi fyrir kauphöllina í heild sinni. Tíu af þeim nítján fyrirtækjum sem skráð eru í kauphöll Nasdaq á Íslandi eru í vísitölunni en að auki er Marel um 60% af markaðsvirði vísitölunnar – og sveiflast hún því að verulegu leyti með gengi Marel.

Einnig er ljóst er að veirufaraldurinn hefur haft gjörólík áhrif á íslensku kauphallarfyrirtækin eftir atvinnugeirum. Alls hafa hlutabréf sjö félaga lækkað á þessu ári, hlutabréf tíu félaga hækkað og bréf tveggja félaga breyst lítið sem ekkert; bréf Eimskips og Sýnar. Hlutabréf þriggja félaga hafa lækkað um fjórðung eða meira og bréf fjögurra félaga hafa hækkað um fjórðung eða meira. Eins og gefur að skilja hafa hlutabréf Icelandair lækkað mest á þessu ári eða um tæplega 90% en bréf Símans hafa hækkað mest, um tæp 40%.

Þrátt fyrir kórónufaraldurinn eru hlutabréf níu kauphallarfyrirtækja í hæstu hæðum. Má þar nefna Festi, Haga, Brim, Sjóvá, Kviku banka og Origo. Bréf þeirra þriggja síðastnefndu hafa hækkað um rúmlega 70% frá því í mars á þessu ári. Slökun á taumhaldi peningastefnu ýtir alla jafna undir hærra hlutabréfaverð. Stýrivextir Seðlabankans hafa lækkað um tvö hundruð punkta á þessu ári.

Hækkun markaða hefur áhrif víða

Hlutabréf tryggingafyrirtækjanna þriggja hækkuðu öll á fyrstu tíu mánuðum ársins 2020. Mest hækkuðu bréf Sjóvá, um rúmlega fjórðung, og bréf VÍS minnst, um tólf prósent. Bréf félaganna þriggja hafa öll hækkað um meira en helming frá því að þau náðu lágpunkti í mars á þessu ári.

Skipta má rekstri tryggingafélaganna í tvennt. Annars vegar vátryggingastarfsemi og hins vegar fjárfestingastarfsemi. Hækkun markaða skiptir sköpum fyrir afkomu tryggingafélaganna og hefur gott gengi átt stóran hlut í þeim viðsnúningi sem hefur átt sér stað á þessu ári, eftir mjög erfiðan fyrsta ársfjórðung. Félögin högnuðust öll talsvert meira á þriðja ársfjórðungi 2020 samanborið við sama tímabil fyrra árs.

Til að mynda var 1,4 milljarða jákvæður viðsnúningur hjá VÍS á fyrrnefndu tímabili. Fjárfestingatekjur voru jákvæðar um 1,1 milljarð á þriðja ársfjórðungi 2020 en neikvæðar um rúmlega 200 milljónir árið áður.

Góð afkoma markaða, hérlendis sem og erlendis, hefur einnig einhver áhrif á rekstur Kviku banka og Arion banka. Á fyrstu tíu mánuðum ársins hækkuðu bréf Kviku um 15% en bréf Arion lækkuðu lítillega. Mikill viðsnúningur var í rekstri félaganna eftir fyrsta ársfjórðung 2020 en bréf Arion hafa hækkað um rúmlega 60% frá því að þau fóru lægst í mars og bréf Kviku um rúmlega 70% á sama tímabili.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .