Upplýsingafyrirtækið Creditinfo Group hefur undanfarin fjögur ár breitt út starfsemi sína um Austur- og Mið-Evrópu. Í samtali Viðskiptablaðsins í dag við Reyni Grétarsson, framkvæmdastjóra fyrirtækisins, kemur fram að félagið er að skapa sér einstæða stöðu sem skapað getur mikil tækifæri í framtíðinni.

Nýleg kaup félagsins í Litháen eru dæmigerð fyrir hugmyndafræði þess en þar rak félagið fyrir starfsemi sem nú hefur verið aukið við með uppkaupum og er félagið komið með 70 manna starfstöð sem ætlað er að vera stökkpallur út til hinna Eystrasaltslandanna og landa þar í kring. Creditinfo Group rekur nú starfsemi í 25 löndum.

Félagið rekur skrifstofur í 13 löndum og er að bæta við tveimur löndum, Dubai og Egyptalandi. Auk þess hefur það umboðsmannakerfi í allmörgum löndum og er að skoða möguleika á starfsemi í Kína, Indlandi og Rússlandi. Í viðtalinu við Reyni kemur fram að tækifærin eru mörg en vöxtur félagsins hefur fyrst og fremst byggst á innri vexti fremur en stórum uppkaupum.

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu í dag.