Talsmaður Samtaka olíuútflutningsríkja (OPEC) hefur varað við því að ef framleiðsla á lífrænu eldsneyti (e. biofuel) muni stóraukast í fyrirsjáanlegri framtíð muni samtökin bregðast við því með því að draga úr fjárfestingu í aukinni framleiðslugetu.

Í viðtali AFP-fréttastofunnar við Abdullah al-Badri framkvæmdastjóra OPEC kemur fram að samtökin hafi ekki áhyggjur af því að vægi annarra orkugjafa aukist á kostnað olíu, sérstaklega ef það verður til þess að sporna gegn hlýnun loftslags vegna losunar gróðurhúsalofttegunda. Hann bendir þó á að samtökin kunni að þurfa að bregðast við þeirri þróun.

Al-Badri bendir á að sumar spár geri ráð fyrir að notkun á lífrænu eldsneyti verði orðin mikil árið 2030 og það þýði að eftirspurn eftir olíu verði minni. Taka verði tillit til þessa þegar kemur að ákvörðunum um fjárfestingu í framleiðslugetu olíuiðnaðar aðildarríkja OPEC. Aðildarríki Evrópusambandsins (ESB) og stjórnvöld í Bandaríkjunum stefna að því að draga úr olíunotkun um tuttugu prósent á næstu 23 árum. Framkvæmdastjórinn segir að OPEC virði rétt þeirra ríkja sem eru afar háð olíunotkun til þess að knýja áfram hjól atvinnulífsins til þess að leita annarra orkugjafa en segir samtökin séu algjörlega mótfallin því að skattalegum úrræðum verði beitt til þess. Slíkt sé dæmt til þess að falla um sjálft sig.

Aðildarríki OPEC framleiða 30 milljónir fata af olíu á dag. Áform eru um að verja 130 milljörðum Bandaríkjadala til fjárfestingar í aukinni framleiðslugetu á næstu fimm árum. Auk þess er að ráðgert að fjárfesta enn frekar á tímabilinu 2012 til 2012. Þau áform gera ráð fyrir að verja 250 til 500 milljörðum dala í aukna framleiðslugetu. Gangi þetta eftir myndi framleiðslugeta OPEC verða 45 milljónir olíufata á dag. Al-Badri segir að ef eftirspurn eftir olíu taki að minnka muni þessi áform verða endurmetin og bendir á í því samhengi að aðildarríki samtaka geti til að mynda frekar varið fé til velferðarmála.

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu í dag.