Launahækkanir lífskjarasamninga áttu stóran þátt í versnandi afkomu hótelkeðju Icelandair á fjórða ársfjórðungi síðasta árs. Þetta kom fram í máli Boga Nils Bogasonar forstjóra Icelandair Group og Evu Sóleyjar Guðbjörnsdóttur fjármálastjóra á uppgjörsfundi félagsins í morgun.

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group, segir ljóst að staðan í ferðaþjónustunni sé erfið hjá mörgum sem stendur. Sé horft lengra fram á vegin standi Ísland vel. „Til lengri tíma tel ég að tækifærin séu mjög mikil og staðan sé góð. Við höfum verið að horfa á það að kostnaðurinn hefur verið að aukast mikið  Lífskjarasamningarnir hækka launahlutföll talsvert í hótel- og veitingageiranum sem eru mikilvægar einingar í ferðaþjónustunni. Staðan er krefjandi í rekstrinum núna. En til lengri tíma eru gríðarleg tækifæri ef við höldum rétt á spilunum að mínu mati," segir Bogi í samtali við Viðskiptablaðið.

Launahækkanirnar koma til á sama tíma og ferðamönnum fækkar. en þeim fækkaði um um 13% eða 67 þúsund á ársfjórðungnum. Það rýrði afkomu hótela félagsins samkvæmt uppgjörinu sem félagið birti í gær. Herbergjanýting Icelandair Hotels versnaði um þrjú prósentustig á fjórða ársfjórðungi síðasta árs. Hins vegar hafi afkoma Iceland Travel batnað þrátt fyrir erfitt rekstrarumhverfi. Í uppgjörskynningunni kom hins vegar fram að búist sé við lægri framlegð í starfsemi Iceland Travel á árinu 2020 en 2019. Í uppgjöri Icelandair kemur fram að hagnaður af feraþjónstufyrirtækjum til sölu, það er Icelandair Hótels og Iceland Travel, hafi lækkað úr 4 milljónir dollara í 2,2 milljónir dollara milli áranna 2018 og 2019.

Bæði ferðaþjónustan og stjórnvöld þurfi að huga að leiðum til að til að gera efla ferðamannalandið Ísland. „Afkoma margra ferðaþjónustufyrirtækja var ekkert sérstök á síðast ári og þetta ár verður jafnframt krefjandi. Við þurfum að horfa til þess að hagræða í þessari grein. Við erum líka að horfa til þess að við berum okkur saman við löndin sem við erum að keppa við um ferðamenn er launakostnaður hér hærri, skattlagning og gjaldtaka hins opinbera er í flestum tilvikum hærri. Þannig að bæði þarf greinin og hið opinbera að vinna saman að því að gera landið samkeppnishæfara,“ segir Bogi.

Ganga á frá sölu á 75% hlut Icelandair Hotels til malasíska fjárfestingafélagsins Berjaya Group fyrir lok þessa mánaðar. Icelandair býst við að bókfæra 25 milljóna dollara söluhagnað vegna sölunnar. Icelandair Group býst við að salan og endurfjármögnun henni tengd skili félaginu 86 milljónum dollara í reiðufé.