Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra telur að lífskjarasamningarnir eigi sinn þátt í því að niðursveiflan hefur ekki orðið dýpri en raun bar vitni. Þetta er á meðal þess sem kemur fram í viðtali sem birtist 80 ára afmælisriti Frjálsrar verslunar, sem var að koma út.

„Ég vonast til að lífskjarasamningarnir verði núna ákveðið leiðarljós í því hvernig við högum okkar vinnumarkaðsmálum,“ segir hún.

Fjölmargar stéttir á opinbera vinnumarkaðnum eiga eftir að semja. Spurð hvort hún vonist til þess að samningarnir þar verði í takt við lífskjarasamningana svarar Katrín: „Það er enginn sem tekur samningsréttinn af fólki og opinberu félögin setja fram sína kröfugerð. Ég vona hins vegar að þær aðgerðir sem við settum fram í tengslum við lífskjarasamningana muni hjálpa. Þær hafa áhrif langt út fyrir almenna vinnumarkaðinn. Lenging fæðingarorlofs, húsnæðisúrræði og skattkerfisbreytingar skipta alla máli, alveg sama hvar fólk er að vinna. Ég vona að þessar aðgerðir muni greiða fyrir samningum á opinbera markaðnum.“

Regluverkið verði skilvirkt

Vinstrihreyfingin – grænt framboð er sá íslenski flokkur, sem stendur lengst til vinstri á Alþingi. Við stofnun flokksins árið 1999 voru megináherslurnar félagslegt réttlæti, sjálfstæð utanríkisstefna, kvenfrelsi og náttúruvernd. Hvað með rekstrarumhverfi íslenskra fyrirtækja? „Ríkisstjórnin leggur áherslu á að bæta rekstrarumhverfið og hefur gert það og get ég sem dæmi bent á lækkun tryggingagjalds í þeim efnum. Við höfum líka verið að vinna stefnumótunarvinnu sem miðar að því að tryggja í senn skilvirkt en einfalt regluverk fyrir þá sem vilja reka fyrirtæki.

Persónulega er ég ekki á því að það eigi að draga úr kröfum heldur eiga þær að vera skýrar og einfaldar. Sums staðar erum við að auka eftirlit eins og til dæmis í skattkerfinu. Við höfum sett aukna fjármuni í skatteftirlit en um leið hefur skatturinn einfaldað allt sitt umhverfi mjög til hagsbóta fyrir almenning og atvinnulífið.“


Viðtalið við Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra er hægt að lesa í heild í 80 ára afmælisriti Frjálsrar verslunar sem var að koma út. Finna má blaðið á helstu sölustöðum. Hægt er að kaupa blaðið hér eða gerast áskrifandi hér .