Drífa Snædal, forseti ASÍ, segir í samtali við Viðskiptablaðið að mikilvægt sé að gefin hafi verið skýr skilaboð um að lífskjör almennings verði tryggð nú þegar útbreiðsa kórónuveirunnar hefur haft töluverð áhrif á hagkerfið.

„Það sem skiptir öllu máli er að fólk fari ekki að herða sultarólina og fari einhvern veginn að breyta öllum framtíðarplönum vegna þess að það óttast um afkomu sína. Þá skiptir máli upp á góða endurreisn að það verði gefin út mjög skýr skilaboð um að lífskjör almennings verði varin eins og nokkur kostur er.

Við höfum að sjálfsögðu áhyggjur sem eru ekkert ólíkar þeim sem komu eftir hrunið því við munum það svo vel. Þá sérstaklega ef verðbólga fer af stað og hvað verði þá um lán heimilanna þannig að við höfum lagt áherslu á að það verði brugðist við því. Við erum hins vegar í öðruvísi stöðu í núna en þá þar sem við vitum að þetta er tímabundið ástand þannig að við erum að horfa á að við náum viðspyrnu fljótt og örugglega, þannig að við förum ekki í spíral niður á við varðandi að snúa við hjólum atvinnulífsins.“

Drífa segir að frumvarp um hlutaatvinnuleysisbætur muni verða stór aðgerð til að vernda bæði fólk og fyrirtæki.

„Það er bæði fyrirtækjum og starfsfólki í hag ef frumvarp um hlutaatvinnuleysisbætur fer í gegn. Það sem við höfum verið að passa mjög vel upp á er að ráðningarsamband haldist, að það verði ekki fjöldauppsagnir heldur að tengingin milli starfsfólks og atvinnulífs haldi. Það er líka lykillinn að því að fyrirtæki séu ekki að missa frá sér reynslu og þekkingu starfsfólks þannig að þau geti farið strax af stað aftur þegar við förum að koma fram á sumarið.

Þetta er í raun risastór aðgerð til að vernda bæði vinnandi fólk og atvinnulífið. Bæði gefur þetta skilaboð að það þurfi ekki að fara í fjöldauppsagnir og skilaboð til almennings að fólk geti haldið sínu striki og staðið við sínar skuldbindingar sem aftur skiptir efnahagslífið miklu máli.

Þetta er stærsta aðgerðin sem við erum að horfa fram á núna og höfum verið í virku samráði við stjórnvöld um það og erum núna í virku samráði við þingið um framvindu málsins.