Árið 2017 var meðalævilengd karla 80,6 ár og meðalævilengd kvenna 83,9 ár á Íslandi og eru þær með þeim hæstu í Evrópu. Þetta kemur fram á vef Hagstofunnar .

Meðalævilengd sýnir hve mörg ár einstaklingur á að meðaltali ólifuð við fæðingu, ef miðað er við aldursbundna dánartíðni mannfjöldans. Aldursbundin dánartíðni hefur lækkað á undanförnum áratugum og má því vænta þess að fólk lifi að jafnaði lengur en reiknuð meðalævilengd segir til um.

Frá árinu 1987 hafa karlar bætt við sig tæplega sex árum og konur rúmlega fjórum í meðalævilengd.

Einnig kemur fram að ungbarnadauði í Evrópu er hvergi jafn fátíður og hér á landi. En á tímabilinu 2007–2016 var ungbarnadauði á Íslandi að meðaltali 1,7 af hverjum 1.000 lifandi fæddum.