Árið 2015 var meðalævilengd karla 81 ár og meðalævilengd kvenna 83,6 ár á Íslandi. Þetta kemur fram á vef Hagstofu Íslands í dag.

Mælingar sýna að frá árinu 1985 hafa karlar bætt við sig rúmlega sex árum og konur rúmlega fjórum árum í meðalævilengd.

Sé horft á tíu ára tímabil, 2005–2014, var meðalævi karla á Íslandi 80,2 ár og í Sviss 80 ár og skipuðu þeir fyrsta og annað sætið meðal Evrópulanda. Fast á hæla þeim komu karlar frá Svíþjóð og Liechtenstein (79,5 ár), Ítalíu (79,4), Noregi og Spáni (78,9 ár). Styst er meðalævilengd evrópskra karla í Moldavíu (65,6), Úkraínu (64) og Rússlandi (61,6).

Á sama tíu ára tímabili, 2005–2014, var meðalævi kvenna í Frakklandi og á Spáni 85,1 ár og skipuðu þær fyrsta sætið í Evrópu. Næstar í röðinni voru konur frá Sviss (84,7), Ítalíu (84,6) og Liechtenstein (84,1) og því næst Íslandi (83,7 ár). Meðalævilengd kvenna er styst í Úkraínu (74,8), Rússlandi (74) og Moldavíu (73,6 ár).