Wow air hefur ráðið Dmitry Kaparulin yfir starfsemi félagsins í Rússlandi, sem og fyrrum lýðveldum Sóvétríkjanna sálugu (e. CIC ). Michele Roosevelt Edwards, stjórnarformaður Wow air , greindi frá þessu á Linkedin í morgun. Miðað við þetta hyggst Wow air því fljúga til Rússlands þegar flugfélagið hefur rekstur.

Kaparulin starfaði sem síðast sem sölustjóri hjá AirBridgeCargo í Rússlandi. Frá 2009 til 2019 var hann framkvæmdastjóri Air Astana í Rússlandi. Þar áður starfaði hann sem sérfræðingur hjá IATA , alþjóðasamtökum flugfélaga. Um síðustu aldamót starfaði hann um tíma sem sölustjóri SAS í Rússlandi og þar áður var hann sölumaður Alitalia í landinu.

Í byrjun febrúar tilkynni Michele um ráðningu Giuseppe Cataldo yfir starfsemi félagsins á Ítalíu. Þegar heimsfaraldurinn var að skella á, í lok febrúar, tilkynnti Wow air að það hygðist hefja frakt- og farþegaflug til Rómar og Sikileyjar á næstunni.