Útgefendur Morgunblaðsins og Fréttablaðsins hafa rætt undanfarin misseri með hléum um möguleika á samstarfi við dreifingu blaðanna en slíkar viðræður hafa ekki verið í gangi að undanförnu, að sögn Ara Edwald, forstjóra 365 hf. „Það er mikill áhugi á að ná fram meiri hagkvæmni í útgáfunni. Maður vonar það besta í þeim efnum, en það liggur ekki fyrir á þessari stundu að breytingar verði á,“ segir Ari. Hann segir viðræður af þessum toga ævinlega hafa strandað á því hversu slíkt samstarf er viðkvæmt, þ.e. að slá saman einingum sem eru í samkeppni og snúa að dreifingu og framleiðslu, enda velti menn væntanlega fyrir sér hvort til greina komi að prenta blöðin á sama stað.

Afskráning ekki vendipunktur

Aðspurður um möguleika á sameiginlegu eignarhaldi á annað hvort prentsmiðju, sem prenta myndi bæði blöðin, eða jafnvel að sami eigandi gæfi út bæði Morgunblaðið og Fréttablaðið, segir Ari að ómögulegt sé að segja til um hvaða form kynni að verða á samstarfi ef sátt næðist um það. „Það hefur ekki náðst nein niðurstaða í þessum efnum,“ segir hann. „Menn hafa áhuga á að ná meiri hagræðingu í þessa starfsemi, enda lífsnauðsyn. Kostnaður hefur hækkað mikið en þrengt að með tekjurnar. Á síðustu vikum og mánuðum hefur orðið mikil breyting til hins verra að því leyti. Það er samdráttur á auglýsingamarkaði og hann hefur verið meiri á prenthlutanum en annars staðar. Það hefur því verið mjög mikill þrýstingur á útgefendur prentmiðla að ná betur utan um kostnað.“

______________________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .