Fasteignafélgið Lífsval tapaði hagnaðist um rétt rúmar 644 milljónir króna árið 2010 eftir tæplega 400 milljóna króna tap árið á undan. Mestu munar um tæplega 1,1 milljarða króna höfuðstólsleiðréttingu á gengislánum félagsins. Ef ekki hefði til þeirra komið hefði tapið að öðru óbreyttu numið 418 milljónum króna.

Þetta er nýjasta uppgjör félagsins sem átti þegar með lét 45 bújarðir víða um land, þrjú kúabú, tvö sauðfjárbú og mjólkurkvóta upp á 1,2 milljónir lítra. Á meðal eignanna er jörðin Flatey í Austur-Skaftafellssýslu, eitt stærsta kúabú landsins.

Fram kemur í uppgjörinu að löggiltur fasteignasali hafi metið virði jarða og fasteigna á þeim í september í fyrra og komist að þeirri niðurstöðu að virði þeirra nemi rétt tæpum 11 milljörðum króna. Það er 6,5 milljörðum krónum meira en bókfært virði þeirra í efnahagsreikningi félagsins. Eignir voru samkvæmt uppgjörinu metnar á tæpa 5,2 milljarða króna.

Þá námu gjaldfallnar skuldir rúmum 600 milljónum króna. Landsbankinn krafðist nauðungarsölu á fjórum jörðum félagsins í fyrrahaust en tók svo félagið yfir í byrjun árs. Það er nú skráð til heimilis í höfuðstöðvum Landsbankans.

Færði skuldir yfir á börnin

Helstu eigendur Lífsvals voru þeir Guðmundur A. Birgisson, löngum kenndur við Núp í Ölfusi og fleiri fjárfestar. Þar á meðal er athafnamaðurinn Ólafur Wernersson með 15,6% hlut.

Fjallað var um hótelrekstur Ólafs í síðasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Þar kom fram að hann hafi árið 2008 fært eignarhald á Hótel Blönduósi yfir á tvö ólögráða börn sín. Það eldra var á þeim tíma ellefu ára. Með eignunum færðust 130 milljóna króna skuldir yfir á herðar barnanna.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.