Líftæknifyrirtækið Genís á Siglufirði hefur frá árinu 2016 framleitt og selt fæðubótarefnið Benecta sem afrakstur af rúmlega 10 ára rannsóknum og þróun fyrirtækisins á notkun og ávinningi af kítín fásykrum. Fyrirtækið sem er að stærstum hluta í eigu Róberts Guðfinnssonar var stofnað árið 2005 og sjö árum seinna opnaði Genís verksmiðju á Siglufirði þar sem í dag starfa um 30 manns.

„Fyrirtækið á sér nokkuð langa sögu, það var stofnað árið 2005 og verður þá rannsóknafyrirtæki með mjög markvissa stefnu að vinna úr lífvirkum kítín fásykrum efni til notkunar í lyfjaframleiðslu og til beinaígræðslu,“ segir Hilmar Bragi Janusson sem ráðinn var forstjóri Genís árið 2017 en áður en hann gekk til liðs við fyrirtækið gegndi hann stöðu forseta verkfræði- og náttúruvísindasviðs Háskóla Íslands. „Árið 2016 var hleypt af stokkunum vara sem kallast Benecta og er fæðubótarefni sem er byggt á þessu til þess að skapa tekjur. Síðan hefur verið haldið áfram með hina hagnýtingarmöguleikana sem felast í beinaígræðslu og lyfjaþróun.

Þetta er um 30 manna fyrirtæki í dag og flestir eru að vinna við framleiðslu, pökkun eða markaðssetningu og sölu á Benectavörunni. Síðan er hópur vísindamanna og verkfræðinga að vinna að rannsóknum og þróun á efnum til beinaígræðslu og undirbúa lyfjaþróun. Framleiðslan felst í því að við kaupum kítín sem unnið er úr rækjuskel, frá Primex á Siglufirði og með efnafræði- og líftæknilegum aðferðum einangrum við sérstakar gerðir og stærðir af kítínfásykrum. Það eru þær sem við höfum valið og hafa þann óvenjulega eiginleika að þær frásogast út í blóðrásina. Það eru þau áhrif sem við erum að vinna með og selja fólki að þegar þetta frásogast og fer út í blóðið þá lýsir fólk fyrir okkur þessum „Benecta-áhrifum“ á stirðleika, verki og þreytu.“

Stendur á tímamótum

Greint var frá því á síðasta ári að Genís hygðist sækja allt að 2 milljarða hlutafjáraukningu til að styðja við áframhaldandi vöxt og uppskölun. Í janúar á þessu ári var svo greint frá því að framtakssjóðurinn TFII, sem er í rekstri Íslenskra verðbréfa, hefði fjárfest í fyrirtækinu og þar með lokið fyrsta áfanga fjármögnunarinnar en samkvæmt ársreikningi TFII, keypti sjóðurinn 4,92% hlut og nam kaupverðið 250 milljónum króna. TFII bætti við fjárfestingu sína á þessu ári en umfang hennar er trúnaðarmál.

Nánar er fjallað um málið í sérblaðinu Atvinnulíf á Norðurlandi sem fylgdi Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .