Líftæknifyrirtækið Nimblegen Systems Inc. hefur lagt inn umsókn um skráningu á markað í Bandaríkjunum. Hyggst félagið þannig afla sér um 75 milljóna Bandaríkjadala eða tæpa fimm milljarða króna með frumskráningu (IPO). Fyrirtækið hefur verið með sína aðalstarfsstöð á Íslandi og hér vinna um það bil 40 manns á vegum félagsins að því er kemur fram í Viðskiptablaðinu í dag.

Sigríður Valgeirsdóttir stýrir starfseminni hér á landi en vildi ekki tjá sig um málið að svo stöddu. Ljóst er þó að starfsemi félagsins mun breytast mjög mikið við skráningu. Í sjóðum þess eru nú um 17 milljónir dala, en tap á fyrstu þremur mánuðum ársins nam 4,6 milljónum dala samkvæmt skráningarbeiðni.

Nimblegen Systems Inc. hefur unnið að þróun örflaga sem eru notaðar við DNA prófanir. Félagið var stofnað árið 1999 í Bandaríkjunum en setti upp starfsstöð hér á landi þremur árum síðar, upphaflega í samstarfi við íslenska líftæknifyrirtækið UVS. Í dag rekur það sjálfstæða rannsóknar og þróunarstöð hér á landi. Nimblegen System hefur þróað ákveðna tækni til smíði á örflögum og hefur allmörg einkaleyfi á því sviði. Þessar örflögur eru seldar sem verkfæri til rannsókna á sviði líftækni og heilbrigðisvísinda. Eftir því sem komist er næst er þetta markaður sem er áætlað að velti um það bil einum milljarði dala árið 2012 eða um 64 milljörðum króna. Til þess að gera fá fyrirtæki eru að bitast um þennan markað.

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu í dag.