Viðskiptahugmyndin Lífvera er ein þeirra tíu sem keppa til úrslita Gulleggsins, frumkvöðlakeppninnar sem haldin er á vegum Icelandic Startups - sem áður var Klak Innovit.

„Hugmyndin var búin að gerjast í dálítinn tíma,” segir Örn Viðar Skúlason, einn þriggja hugmyndasmiða Lífveru. Örn ásamt Helga Magnússyni og Davíð Baldurssyni stundar meistaranám í markaðssetningu og fjármálum fyrirtækja hjá HR.

Markmið hugmyndar þeirra er að hjálpa fólki að líta eftir heilsu sinni með gagnvirku eftirlitsforriti. Örn líkir Lífveru við fjármálaforritið íslenska Meniga, sem heldur utan um fjármál notandans og gefur honum hollráð hvað varðar sparnað.

„Með þessari hugmynd heldur notandinn betur utan um heilsuupplýsingar sínar, og kerfið gefur læknisfræðilegar ráðleggingar út frá gögnunum,” segir Örn. „Okkur finnst vanta ráðleggingu fyrir venjulegt fólk um hvernig og hvenær það á að huga að læknisfræðilegu eftirliti. Þegar það kemur að því að verjast alvarlegum sjúkdómum verður myndin þokukennd. Þar kemur Lífvera inn í myndina.”

Þegar er til ófrynni snjallsímaforrita sem halda utan um heilsugögn. Til að mynda býður Apple upp á innbyggt forrit í snjallsíma sína sem ber einfaldlega heitið Apple Health. Þar er hægt að skrá inn alls kyns upplýsingar - en forritið getur ekki unnið úr þessum upplýsingum og gefið ráð út frá þeim.

„Það er til fullt af forritum sem halda utan um heilsuupplýsingar, en ekkert sem gefur manni ráðleggingar út frá upplýsingunum sem maður setur inn,” segir Örn. „Lífvera gerir manni kleift að vinna markvisst að því að bregðast við alvarlegum sjúkdómum eða að fyrirbyggja þá áður en þeir eiga sér stað.”