*

mánudagur, 24. febrúar 2020
Innlent 27. janúar 2019 12:03

Liggur á að fá skrúfuþotuna í notkun

Ferðaþjónustufyrirtæki hefur keypt 26 sæti í hverri ferð nýrrar kyrrsettrar 32 sæta skrúfuþotu Ernis til Hafnar í allt sumar.

Ritstjórn
Með samstarfi við erlendar ferðaskrifstofur hefur aukist mikið að ferðamenn fljúgi út á land, en hjóli og keyri til baka. Flugfélaginu Erni liggur á að fá nýju vélina í gagnið því búið er að kaupa 26 sæti í hverri ferð með henni í allt sumar.
Haraldur Guðjónsson

Herði Guðmundssyni, forstjóra Flugfélagsins Ernis hefur langa reynslu af flugrekstri, og gert ýmislegt í gegnum árin í sínum flugrekstri sem hófst á Ísafirði. Þar með talið að fljúga eftir loðnu fyrir vestfirska útgerðarmenn, en hann segir flugvelli landsins fara hrakandi vegna ónógs viðhalds og við séum þannig að nálgast það að komast aftur á malarvellina.

Hörður segir ákaflega mikilvægt að félagið fái kyrrsetningu ISAVIA á 32 sæta Dornier skrúfuþotu félagsins aflétt. Enda félagið búið að bæði bíða eftir henni lengi í gegnum skráningarferli og búið sé að selja langflest sætin í henni til ferðaþjónustufyrirtækis í sumar á flugleiðinni til Hafnar í Hornafirði.

Hann segir húsnæði félagsins „í gíslingu hjá ríkinu“ því ekki fáist lóðaleigusamningur og því sé eignin sem félagið lagði 90 milljónir í, sem er svipuð upphæð og félagið skuldar ISAVIA, skráð í eigu ríkisins. Þar með getur félagið ekki veðsett eignina fyrir skuldinni. Jafnframt segir hann ljóst að það sé þaulreynt að vera með samkeppni í innanlandsfluginu.

Þó að Hörður hafi áhyggjur af útfærslunni segir hann mögulegt að hugmyndir stjórnvalda um svokallaða skoska leið geti lyft innanlandsfluginu, sem hann hefur áhyggjur af, en hann segir samkeppni í greininni hafa verið þaulreynda. Hún felur í sér að hluti af fargjöldum íbúa ákveðinna svæða verði niðurgreiddur.

„Það sem maður hefur heyrt af þessum hugmyndum hljómar því miður ekki þannig að það sé verið að hugsa endilega um afkomu flugfélaganna heldur einvörðungu farþeganna af landsbyggðinni. Þetta hefur þó að einhverj leytu tekist vel til í Skotlandi, þar sem þetta byrjaði með 30% styrk á hvern flugmiða og er núna 50%, en þar er verið að fljúga til mun stærri byggða en hér, ekki neinna 400 manna eða 250 manna þorpa. Þar er jafnframt samkeppni milli þriggja félaga, svo spurningin verður fyrst og fremst hvernig fyrirtækin eigi að fá þessar greiðslur til sín,“ segir Hörður. 

„Eitt af því sem maður hefur heyrt um þetta kerfi er að tilboðsmiði sem farþegi geti keypt af netinu sé á segjum 12 þúsund krónur, en með niðurgreiðslunni þá greiði kúnninn einungis 6 þúsund krónur fyrir miðann. Þá þarf félagið að sækja hinn 6 þúsund kallinn til ríkisins, en ef það verður eins og maður óttast þá fær félagið kannski ekki nema þrjú þúsund krónur eða eitthvað svoleiðis.

Það verði sagt að líka þurfi peninga til að halda uppi flugvallarkerfinu og því fái félagið einungis níu þúsund krónur fyrir tólf þúsund króna flugmiða. En ef tólf þúsund krónur dugar ekki til að reka farþegaflug, hvernig á þá níu þúsund krónur að gera það? Á móti er sagt að það verði mun fleiri farþegar, en ég held að þar liggi misskilningurinn, þetta eru svo fáir farþegar sem eru í boði, enda bara nokkur hundruð manns sem búa í hverju plássi.“ 

Jafnvel meiri skattar af innanlandsflugi en milli landa

Spurður af hverju ferðamannastraumurinn hafi ekki hjálpað innanlandsfluginu meira segir hann það vera vegna þess hve innanlandsflugið hefur verið dýrt miðað við flugmiðaverðið í millilandafluginu síðustu árin. „Farþeginn er að borga sömu skatta, hvort sem hann er að fljúga til Vestmannaeyja eða til New York, og í raun meiri. En þó maður hefði viljað sjá ferðamennina nýta innanlandsflugið meira hafa þeir smitast inn að nokkru leyti.

Á sumrin eru þeir kannski 18 til 20% farþeganna, en það er fyrst og fremst landsbyggðarfólkið sem er að nýta þetta í alls konar samskiptum við stjórnsýslukerfið, heilbrigðiskerfið og öll þau kerfi sem hafa verið byggð upp á Reykjavíkursvæðinu. Við erum sjálf landsbyggðartúttur sem vitum alveg hvað brennur á fólki, og ef þetta fólk fær ekki að búa við þær samgöngur sem nútímasamfélag þarf að geta boðið upp á, þá leggjast þessir staðir af,“ segir Hörður sem segir félagið þó hafa náð ákveðnum árangri í því að ná til ferðamannanna, og nýleg kaup félagsins á 32 sæta Dornier skrúfuþotu hafi verið liður í því. 

„Fyrir nokkrum árum hafði samband öflugt kanadískt fyrirtæki sem selur ferðir til dæmis á Nýja-Sjálandi og víðar um heim. Forstjórinn kom hingað og vildi byggja upp með okkur í ferðaþjónustu á Íslandi. Hann byrjaði á því að fara með okkur austur á Hornafjörð og í framhaldi af því koma litlir hópar á vegum fyrirtækisins, sniðnir að stærð okkar véla. Hann hefur keypt leiguflug með þennan hóp, en á endastöð eins og á Hornafirði þá tekur rúta á móti fólkinu. Eftir að hafa flogið aðra leiðina þá hjólar fólkið hluta af leiðinni til baka, tekur rútu hluta af leiðinni, það fer á jökul og á Jökulsárlón. Það gistir á hótelum nokkrar nætur á leiðinni en þetta er kannski vikutúr og endar svo í Keflavík og þá er farið heim. 

Fyrsta árið sendi hann fimm svona hópa, næsta ár voru þeir tólf, síðan 25 hópar, og var það í tvö til þrjú ár, en á síðasta ári fórum við í fimmtíu svona ferðir fyrir hann. Nú er þetta fyrirtæki búið að panta með nýju stóru vélinni okkar, og er það ein af ástæðunum fyrir því að við erum búin að kaupa stærri og öflugri vél, 26 sæta á Hornafjörð með hverri ferð í allt sumar. Þess vegna er það ákaflega mikið atriði að við getum komið vélinni í gang, og jafnvel fjölgað í vélum af þessari stærð. Hluti af því að ferðamennskan hefur ekki farið í flugið er kannski vegna þess að það hefur ekki verið hægt að sinna henni. Það er mikið atriði fyrir okkur að geta því náð vélinni í notkun, og helst aðra til, en í kortunum er að við getum fengið aðra svona vél lánaða.“ 

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta gerst áskrifendur hér.