Sigrún Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Samfylkingarinnar, segir að ekki liggi fyrir upplýsingar um það hvenær styrkir til flokksins árið 2006 komu í hús. Ekki hafi verið tekið ákvörðun um það hvort þær upplýsingar verði teknar saman og hvort þær verði þá birtar.

Samfylkingin birti um páskahelgina yfirlit yfir þá styrki til flokksins árið 2006 sem fóru yfir fimm hundruð þúsund krónur. Samtals námu þeir styrkir 36 milljónum króna.

Tilefni yfirlits Samfylkingarinnar er umræða um styrki FL Group og Landsbankans til Sjálfstæðisflokksins það sama ár upp á samtals 60 milljónir króna. Styrkirnir bárust í hús í desember eða í sama mánuði og formenn stjórnmálaflokkanna, með Geir H. Haarde, fyrrverandi formann Sjálfstæðisflokksins, í broddi fylkingar fluttu frumvarp á Alþingi um 300 þúsund króna hámarksstyrk frá einum lögaðila.

Sigrún segir í samtali við Viðskiptablaðið að fjársöfnun hafi hafist hjá Samfylkingunni haustið 2006 til að ná niður skuldum flokksins sem námu í árslok 2005 um fimmtíu milljónum króna. Styrkirnir hafi því borist í hús síðla árs 2006 en hún kveðst, sem fyrr segir, ekki hafa upplýsingar um það hvenær nákvæmlega þeir voru lagðir inn á reikninga flokksins.

Fram kemur í yfirliti Samfylkingarinnar að hæsti einstaki styrkurinn árið 2006 hafi numið fimm milljónum króna. Sá styrkur kom frá Kaupþingi.

Sjá nánar hér.