Steingrímur Birgission forstjóri Bílaleigu Akureyrar/Höldur segir það eina verstu fjárfestingu fyrirtækisins að kaupa rafbíla. „Nýtingin er ekki góð,“ segir Steingrímur í samtali við Fréttablaðið . „Bíllinn kemur inn kannski á hádegi og þá þýðir það að við getum ekki leigt hann út fyrr en morguninn eftir þar sem við þurfum að hlaða hann. Þetta er enn þá of dýrt.“

Félagið keypti fyrsta rafbílinn árið 2008 í tilraunaverkefni með Orkuveitu Reykjavíkur, Orkustofnun og fleiri aðilum, en í dag á bílaleigan um 20 rafbíla. Heildarfloti bílaleigunnar er hins vegar um 4.600 bílar.

Engin efni til að vera fremst í flokki

„Það er allt í lagi að við Íslendingar verðum framarlega í flokki en ég held að það séu engin efni til þess að við séum fremstir í flokki,“ segir Steingrímur um hugmyndir Bjartar Ólafsdóttur umhverfisráðherra og annarra um rafbílavæðingu flotans fyrir árið 2030, enda sé ekki hægt að kalla eftir uppbyggingu innviða á einni nóttu.

„Ég held að það sé margt annað í þjóðfélaginu sem liggur meira á að laga.“

Fara aldrei meira en 220 kílómetra

Steingrímur segir að þó fullyrt sé að bílarnir geti farið allt að 300 kílómetra á hleðslu þá „fara [þeir] aldrei nema 220 og ferðamaðurinn er oft að keyra 300 til 400 kílómetra. Þannig að hann þarf einhvers staðar að komast í hleðslu og best er að hann geri það á einhverjum næturstað, á hóteli eða gistiheimili,“ segir Steingrímur.

„Það þurfa að vera til hleðslustöðvar út um allt landið.“ Steingrímur nefnir jafnframt nauðsyn þess að það verði hægt að hlaða bílana á Keflavíkurflugvelli.