Einkavæðingarnefnd Ungverjalands mun velja kaupanda að 75% hlut ungverska ríkisins í margmiðlunarfyrirtækinu Antenna Hungaria þann 28. júlí, að sögn stjórnarformanns nefndarinnar, Tamaz Meszaros.

Tékkneska fjarskiptafélagið, Ceske Radiokommunicace (CRa), sem er að stórum hluta í eigu íslenskra fjárfesta, er eitt af sex félögum sem valin voru í aðra umferð söluferlisins. Hin fimm félögin eru spænska fyrirtækið Abertis Telecom, austurríska fjarskiptafélagið Austrian Rundfunk, svissneska símafyrirtækið Swisscom, franska fjarskiptafélagið Telediffusion de France og ástralska fjárfestingafélagið Maquarie.

Íslenskir fjárfestar undir forystu Björgólfs Thor Björgólfssonar eiga meirihluta hlutafjár í CRa í gegnum eignarhaldsfélagið Bivideon B.V., sem skráð er í Hollandi.

Ungversk stjórnvöld hafa falið einkavæðinganefnd landsins, APV, að selja 75% hlut í Antenna. Hlutur ríkisins er metinn á 12,7 milljarða króna.